Þann 13. nóvember 2013 voru 350 ár liðin frá fæðingu Árna Magnússonar handritasafnara. Þeirra tímamóta var minnst með ýmsum hætti á árinu en hátíðahöldin náðu hámarki á sjálfan afmælisdaginn. Hennar hátign Margrét Þórhildur Danadrottning heiðraði Íslendinga og stofnunina með því að vera viðstödd þá viðburði sem efnt var til þennan dag í minningu Árna og hans ómetanlega söfnunarstarfs.
[Mynd 1]Viðamikil hátíðardagskrá var í Þjóðleikhúsinu um kvöldið með þátttöku íslenskra rithöfunda og listamanna. Þar komu fram margir helstu listamenn þjóðarinnar sem sýndu hvílíkt líf er í arfi handritanna; í skáldskap, myndlist, tónlist og kvikmyndum. Stjórnandi dagskrárinnar var Bergur Þór Ingólfsson. Hún var tekin upp og verður sýnd í Sjónvarpinu 1. desember 2013.
Fyrr um daginn opnaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sýninguna Íslenska teiknibókin – 350 ára afmæli Árna Magnússonar í Gerðasafni í Kópavogi að viðstöddum Margréti II Danadrottningu og Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands. Einnig fluttu Guðbjörg Kristjánsdóttir sýningarstjóri og Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, ávörp við það tilefni.
[Mynd 2]Annette Lassen, lektor við Kaupmannahafnarháskóla, hélt Árna Magnússonar fyrirlestur að viðstöddum Danadrottningu og forseta Íslands. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, flutti ávarp, Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, sagði frá Árna Magnússyni og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, bauð gesti velkomna.[Mynd 3]
Í tilefni dagsins gáfu Árnastofnanirnar í Reykjavík og Kaupmannahöfn og Bókaútgáfan Opna út veglega sýnisbók handrita sem ber heitið 66 handrit úr fórum Árna Magnússonar. Bókin er ríkulega myndskreytt og í hana skrifa 35 fræðimenn skemmtilega pistla um þær gersemar sem finna má í fjölbreyttu handritasafni Árna.
- Nánar um hátíðahöldin á árinu og útgáfur í tilefni þess að 350 ár eru liðin frá fæðingu Árna Magnússonar.