Að tillögu menntamálaráðherra ákvað ríkisstjórn Íslands, haustið 1995, að 16. nóvember ár hvert, sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, yrði dagur íslenskrar tungu. Í framhaldi af því hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það. Með því móti beinist athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu.
Dagur íslenskrar tungu var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1996. Fjölmargir aðilar lögðu hönd á plóg og efndu til viðburða af þessu tilefni. Má þar nefna fjölmiðla, skóla, stofnanir og félög. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hélt hátíðarsamkomu og veitti þar í fyrsta sinn Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskunnar. Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur með svipuðu sniði og sífellt fleiri aðilar taka virkan þátt í honum með ýmsu móti.
Dagur íslenskrar tungu er opinber fánadagur. Hinn 16. nóvember skal draga fána á stöng á húsum opinberra stofnana, sem eru í umsjá valdsmanna eða sérstakra forstöðumanna ríkisins, sbr. 2. gr. forsetaúrskurðar um fánadaga og fánatíma nr. 5/1991 . Einnig fer vel á því að aðrir dragi íslenska fánann að húni á degi íslenskrar tungu.