Skip to main content

Fréttir

Bessastaðaskóli – vagga íslenskrar menningar


Áhrif og arfur dr. Hallgríms Scheving

Laugardaginn 4. október næstkomandi verður í annað sinn efnt til hátíðarinnar Bessastaðaskóli – vagga íslenskrar menningar. Dagskráin hefst klukkan 14 í íþróttamiðstöð Álftaness.

Á samkomunni verður blandað saman fræðum og listflutningi sem tengist umfjöllunarefninu. Guðrún Kvaran flytur erindi sem nefnist „Áhyggjur orðasafnarans“, Einar Laxness – „Sitthvað um Bessastaðaskóla“ og Sigrún Magnúsdóttir um „Áhrif dr. Hallgríms Scheving á skólasveina á Bessastöðum“.  Elvar Berg, Álftaneskórinn, Ingibjörg Guðjónsdóttir, Tinna Þorsteinsdóttir og Tryggvi M. Baldvinsson sjá um tónlistaratriði. Auk þess munu forseti Íslands, forseti bæjarstjórnar og bæjarstjórinn á Álftanesi ávarpa viðstadda.


Bessastaðaskóli og Hallgrímur Scheving
Latínuskólinn var fluttur til Bessastaða árið 1805 og þá hófst endurreisnarskeið menntunar á Íslandi. Skólinn hafði verið við slæmar aðstæður á Hólavöllum í Reykjavík. Hann var starfræktur á Bessastöðum frá 1805-1846 þegar hann var fluttur aftur til Reykjavíkur. Á þessum tíma gengu í skólann flestir þeirra manna sem síðar voru í fararbroddi endurreisnar lands, þjóðar og tungu.

Hallgrímur Scheving (1781-1861) nam málfræði í Kaupmannahafnarháskóla og lauk þaðan doktorsprófi í fornmálunum. Hann hóf kennslu við Bessastaðaskóla árið 1810 og gegndi hann ásamt Sveinbirni Egilssyni lykilhlutverki í þeirri endurreisn íslenskrar tungu sem oft er kennd við Bessastaðaskóla. Hallgrímur var átrúnaðargoð Fjölnismanna og hafði sterk áhrif á þá. Hallgrímur var mikill málfræðingur og áhugamaður um íslenska tungu. Hann var einnig áhugasamur um náttúruvísindi og gæti hafa vakið áhuga Jónasar Hallgrímssonar á þeim fræðum. Hallgrímur vann einnig menningarafrek með orðasöfnun.

Nánari upplýsingar veitir Ásdís Bragadóttir í síma 845 8118. Netfang hennar er: talstofa@simnet.is.