Í gærmorgun fór ársfundur Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fram á Hótel Sögu undir yfirskriftinni Sprotar. Á fundinum var sjónum beint að þátttöku ungra vísinda- og listamanna í starfsemi stofnunarinnar en á undanförnum árum hefur aðkoma þeirra verið fjölbreytt og einkar skapandi. Í miklum niðurskurði síðustu ára hefur stofnunin notið góðs af jákvæðu átaki Vinnumálastofnunar og auknu fé í Nýsköpunarsjóð námsmanna og fengið til liðs við sig fjölda stúdenta sem kynnst hafa gögnum og rannsóknarverkefnum stofnunarinnar. Meðal þess sem fjallað var um á ársfundinum var villuleitarforritið Skrambi sem Jón Friðrik Daðason hefur unnið að í félagi við Kristínu Bjarnadóttur.
Skrambi er mun fullkomnara villuleitarforrit en þau sem hafa þekkst fram til þessa en hann getur ekki aðeins skorið úr um það hvort orð séu rétt stafsett heldur getur líka ráðið í samhengi og þannig t.d. komið í veg fyrir ypsilon villur. Einnig sagði Kristín Una Friðjónsdóttir frá Íðorðasafni í alþjóðastjórnmálum og stjórnmálafræði en afrakstur beggja þessara verkefna verður gerður aðgengilegur á netinu til frjálsra afnota. Undir lok fundarins opnaði Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra svo Markaða íslenska málheild sem unnið hefur verið að undanfarin ár, á henni byggir villuleitarforritið Skrambi meðal annars. Sigrún Helgadóttir sagði frá málheildinni og mikilvægi hennar sem grunni fyrir frekari rannsóknum og framþróun á sviði íslenskrar máltækni. Spiluð var tónlist Einars Sverris Tryggvasonar sem byggð er á upptökum úr segulbandasafni Árnastofnunar.
Á fundinum sögðu Ana Stanićević frá Serbíu og Matthew David Deaves frá Englandi frá því hvers vegna þau hefðu kosið að læra íslensku. Í erindi Önu kom fram að hana hefði dreymt um íslenskunám meðan hún sjálf kenndi norsku við háskóla í Belgrad þegar hún fann að nemendur hennar smituðust af áhuga hennar á íslensku varð hún staðráðin í því að láta drauminn verða að veruleika. Um þessar mundir þiggur hún styrk mennta- og menningarmálaráðuneytis til að læra íslensku sem annað mál en áður sótti hún sumarskóla í íslensku sem stofnunin stendur fyrir í samvinnu við Hugvísindasvið Háskóla Íslands: „Draumur minn er að vera tengingin milli Serbíu og Íslands, að skapa menningartengsl milli landanna og það væri mest gaman að bæta við norrænu deildina í Belgrad og kenna þar íslensku og kynna menningu og bókmenntir.“ Stundum er sagt að glettni sé það sem næst síðast í tungumálanámi, Matthew David sló á létta strengi og sagði m.a.: ,,Hvernig ætla ég að nota námið mitt í íslensku. Það er góð spurning. Spurning sem mamma mín spyr mig stöðugt". Matthew lærði íslensku í University College of London, hann sótti einnig sumarskóla í íslensku og stundar nú nám við HÍ. Katelin Parsons frá Kanada greindi svo frá einkar forvitnilegri uppgötvun handrita sem Vestur-Íslendingar ýmist skrifuðu í Vesturheimi eða tóku með sér þangað frá Íslandi undir lok 19. aldar.
Á vef Ríkisútvarpsins má hlusta á brot frá ársfundinum.