Skip to main content

Fréttir

Ársfundur og ráðstefna EFNIL haldin í Ljubljana

Ársfundur EFNIL (European Federation of National Institutions for Language) ásamt árlegri ráðstefnu fór fram í Ljubljana 11.−13. október. Íslensk málnefnd og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum taka sameiginlega þátt í starfi samtakanna af Íslands hálfu.

Hópur fólks situr með heyrnartól og rýnir í blað.

Starkaður Barkarson hélt boðsfyrirlestur

Meginefni ársráðstefnu EFNIL 2023 voru tungumálavefgáttir og orðabækur á vefnum, og ekki síst aðkoma hins almenna málnotanda að þeim; By the People, for the People: Online Dictionaries, Language Portals, and the Role of Language Users. Að tillögu fulltrúa Íslands var Starkaður Barkarson, landsfulltrúi CLARIN á Íslandi, valinn sem einn þriggja boðsfyrirlesara á ráðstefnunni. Starkaður hefur undanfarna mánuði unnið ásamt fleirum að svonefndri íslenskugátt sem er verkefni menningar- og viðskiptaráðherra um aðgang að orðabókum og máltæknilausnum, með aðkomu Árnastofnunar. Starkaður flutti fyrsta erindi ráðstefnunnar og veitti yfirlit um mismunandi gerðir vefgátta og ólíka nálgun. Fram kom í fyrirlestri hans að flestar vefgáttir hafi byggst á því að miðla sem best því orðabókarefni og öðrum fróðleik um mál og málnotnun sem þegar sé fyrir hendi á ýmsu formi. Nú sé að ryðja sér til rúms önnur nálgun þar sem gengið er strax í upphafi út frá tilteknum notendahópi og vefgáttin sniðin markvisst að þörfum hans. Starkaður tók málið.is sem dæmi um hið fyrrnefnda og væntanlega íslenskugátt sem dæmi um síðarnefndu aðferðina.

Áhyggjur af óþýddu efni í streymisveitum og ófullkomnum leiðréttingartólum

Meðal helstu umræðuefna ársfundarins var undirbúningur ályktunar þar sem komið yrði á framfæri áhyggjum samtakanna af stöðu Evrópumála í ljósi þess að streymisveitur á borð við Netflix og Disney+ gefa í fjölmörgum löndum ekki kost á þýðingum úr ensku. Einnig var rætt um að mjög víða séu leiðréttingartól, til dæmis í Google-skjölum, afar ófullkomin og ekki í samræmi við opinberar ritreglur um þjóðtungu(r) viðkomandi lands.

Breytingar á skrifstofu EFNIL

Skrifstofa EFNIL hefur um árabil verið í höndum Ungversku rannsóknarmiðstöðvarinnar í málvísindum, Nyelvtudományi Kutatóközpont, í Búdapest. Á ársfundinum var ákveðið að færa skrifstofuna til Leibniz-Institut für Deutsche Sprache í Mannheim. Næstu þrjú ár hafa stofnanirnar samvinnu um reksturinn áður en skrifstofuhaldið færist alfarið til stofnunarinnar í Mannheim sem margir starfsmenn Árnastofnunar þekkja eftir kynnisferð þangað sumarið 2023 þar sem Andreas Witt prófessor, sem situr í framkvæmdastjórn EFNIL, átti veg og vanda af góðum móttökum.

Verðlaunasamkeppni um framúrskarandi meistararitgerðir

Meðal verkefna á vegum EFNIL er árleg samkeppni, Master Thesis Award, þar sem keppt er til verðlauna fyrir framúrskarandi meistararitgerð um notkun og stöðu tungumála, málstefnu, sambúð tungumála og málakennslu. Á ársfundinum í Ljubljana voru veitt þrenn verðlaun og höfundar ritgerðanna héldu fyrirlestra um efni þeirra: Fani Morali: Exploring refugee children’s bilingualism through multimodal identity texts; Denise Weghofer: Scaffolding and Reading in German Lessons in Lower Secondary Education – Using Scaffolding Tools to Become Successful Second Language Readers; Julia Elena Pardo Alonso: #dudaRAE: A merging analysis of folk prescriptivism and dialectology.

20 ára afmæli EFNIL

Samtökin EFNIL voru stofnuð 2003 af nokkrum ESB-löndum. Ári síðar var Noregi og Íslandi boðin aukaaðild og smám saman hafa þjóðtungustofnanir fleiri ríkja bæst við. Aðildarlöndin er nú 29 talsins. Í Ljubljana var þess sérstaklega minnst að 20 ár eru liðin frá stofnun samtakanna. Gerhard Stickel og Johan van Hoorde, fyrri forsetar samtakanna, fóru meðal annars yfir sögu þeirra og tilgang. Núverandi forseti er Sabine Kirchmeier, fyrrverandi forstöðumaður Dansk Sprognævn.

 

Myndir frá ráðstefnunni eru úr safni ráðstefnuhaldara, Inštitut za slovenski jezik Frana Ramovša.