Skip to main content

Fréttir

Ársfundur Félags íslenskra fræða í Japan

Hópur fólks stillir sér uppí kennslustofu. Að baki þeirra er fundartjald og á það er varpað andlitum fólks sem er rafrænt viðstatt.
Fundur Félags íslenskra fræða í Japan.
Branislav Bédi

Branislav Bédi, verkefnisstjóri á íslenskusviði Árnastofnunar, og Úlfar Bragason, prófessor emerítus við Árnastofnun, tóku þátt í ársfundi Félags íslenskra fræða í Japan (e. The Society for Icelandic Studies of Japan) sem var haldinn í fertugasta og fjórða sinn við háskólann í Matsumoto 25. maí síðastliðinn. Auk venjulegra aðalfundarstarfa var þeim Branislav og Úlfari boðið að halda fyrirlestra um kortlagningu á stöðu íslenskra fræða og íslenskukennslu í Japan annars vegar og frásögn Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar af svokölluðum Staðarhólsmálum hins vegar. Á fundinum gafst þeim einnig tækifæri til að hitta kennara og nemendur frá mismunandi háskólum í Japan og ræða m.a. stöðu íslenskukennslu og rannsókna og útgáfu nýrra fræðirita og bóka. Ætlun félagsmanna er að hefja vinnu við nýjar þýðingar á íslenskum fornsögum í Japan.

Félag íslenskra fræða í Japan er fræðafélag fyrir rannsakendur, háskólakennara og -nema sem fást við rannsóknir og kennslu á sviði íslenskrar menningar, bókmennta að fornu og nýju, sagnfræði, málvísinda og íslensku sem erlends máls í Japan. Markmið félagsins er m.a. að styðja við samanburðarrannsóknir á milli Íslands, Norður-Evrópu og Japans og með því auka akademísk samskipti á milli landanna. Félagið hefur gegnt mikilvægu hlutverki í að skapa traustan vettvang fyrir háskólakennara, nemendur og nýja rannsakendur frá stofnun þess árið 1981. Upplýsingar um starfsemina og gestafyrirlestra eru gefnar út í ársskýrslu félagsins.

Auk þátttöku í fundinum heimsóttu Branislav og Úlfar Rykkyoháskóla og Wasedaháskóla í Tókýó og háskólana í Kanazawa, Tokai og Osaka þar sem þeir kynntu fyrir nemendum íslenska tungu og menningu, möguleika til íslenskunáms og rannsókna á Íslandi og rannsóknir á miðaldabókmenntum. Áhugi nemenda á íslensku sem erlendu máli og íslenskum fræðum er mikill í Japan. Árlega er boðið upp á mismunandi námskeið í íslensku og tengdum greinum við a.m.k. sex háskóla í Japan: Wasedaháskóla, Tokaiháskóla, Háskóla erlendra mála í Tókýó (e. Tokyo Foreign Language University), Iðnaðarháskólann í Muroran, Osakaháskóla og Kanazawaháskóla. Íslensk stjórnvöld styðja íslenskukennslu á byrjendastigi við Wasedaháskóla en sumir japanskir háskólanemar sækja einnig um styrk íslenskra stjórnvalda eða koma á eigin vegum til að stunda BA-nám í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands. Þörf er á nýjum þýðendum og fræðimönnum í íslenskum fræðum í Japan og mikilvægt er að efla samstarf á þessu sviði á milli landanna tveggja. Af þessu tilefni heimsóttu þeir Branislav og Úlfar einnig sendiráð Íslands í Japan þar sem þeir kynntu sér starfsemi sendiráðsins á sviði íslenskrar tungu og menningar.

Stefnt er að áframhaldandi menningarsamstarfi og aukinni kynningu á íslenskri tungu, menningu og rannsóknum í Japan. Styrkur fyrir heimsókninni fékkst úr Íslandsdeild Scandinavia-Japan Sasakawa Foundation sem veitir styrki til að efla tengsl Íslands og Japans.