Skip to main content

Fréttir

Arndís Þórarinsdóttir og Guðrún Ása Grímsdóttir tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna voru kynntar 1. desember. Meðal tilnefninga voru bækur Guðrúnar Ásu Grímsdóttur Sturlunga saga I-III og bók Arndísar Þórarinsdóttur Bál tímans. Við óskum þeim innilega til hamingju með glæsilegan árangur.

Um bækurnar:

Sturlunga saga I-III er þýðingarmesta rit sem til er um íslenska viðburði á 12. og 13. öld, margslungin stríðssaga um valdabaráttu höfðingja, bregður upp lifandi mannlýsingum og sviðsetur örlagaþrungna atburði sem leiddu til þess að Íslendingar gengu Noregskonungi á vald laust eftir miðja þrettándu öld.

Sturlunga saga I-III er sagnasafn sett saman fyrir sjö öldum úr mörgum sögum og þáttum í þessari röð: Geirmundar þáttur heljarskinns, Þorgils saga og Hafliða, Ættartölur, Sturlu saga, Formáli, Prestssaga Guðmundar Arasonar góða, Guðmundar saga dýra, Íslendinga saga Sturlu Þórðarsonar, Haukdæla þáttur, seinni hluti Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar, Þórðar saga kakala, Svínfellinga saga, Þorgils saga skarða, Sturlu þáttur og loks viðauki. Í þessari útgáfu eru enn fremur brot úr jarteinum Guðmundar Arasonar, brot úr Þorgils sögu skarða, sjálfstæð gerð Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar og Árons saga. Í hverju bindi útgáfunnar eru valdar myndir eftir efni. Skýringar á vísum og ýmsum efnisatriðum eru neðanmáls við textann. Formáli fylgir fyrsta bindi, enn fremur 46 ættskrár og nokkur landakort. Síðast í þriðja bindi er nafnaskrá með stiklum um helstu viðburði á ævi sögupersóna.

Guðrún Ása Grímsdóttir gaf út með formála, skýringum og skrám.

Ritstjóri er Þórður Ingi Guðjónsson.

 

Bál tímans eftir Arndísi Þórarinsdóttur kemur út þegar hálf öld er liðin síðan fyrstu miðaldahandritunum var skilað til Íslands eftir aldalanga dvöl í Danmörku. Arndís Þórarinsdóttir skrifar sögu Möðruvallabókar út frá öllum tiltækum heimildum en líka ríkulegu ímyndunarafli þannig að atburðirnir lifna við í textanum, sem og í fjörugum myndum Sigmundar B. Þorgeirssonar. 

Í viðtali í Morgunblaðinu fyrr á árinu þegar Arndís var spurð hvers vegna bókin sjálf væri sögumaður sagði hún: „Ég vildi að sagan væri persónuleg og sjónarhornið líka. Mér þótti ekki heppilegt að segja söguna út frá eigendum bókarinnar hverju sinni, sem helgast af því hvað sögutíminn er langur. Þannig hefði sögumaður hvers kafla alltaf verið dáinn þegar nýr kafli byrjaði með tilheyrandi flækjustigi. Mér fannst því best að nálgast efniviðinn þannig að handritið sjálft væri sögumaður og bókin skáldaðar æviminningar.“

Í bókinni rekur Arndís sögu Möðruvallabókar frá því hún er rituð og fram yfir okkar daga en bók hennar lýkur þegar verið er að vígja Hús íslenskra fræða sem er enn í byggingu. Í viðtali í Fréttablaðinu af tilefni útkomu bókarinnar fyrr á árinu sagði Arndís: „Ég hef ýmsar vörður til að styðjast við, þótt margt sé á huldu. Við vitum til dæmis fyrst af handritinu árið 1628, því þá merkir Magnús Björnsson lögmaður sér það í stóru baðstofunni á Möðruvöllum, en við vitum ekki hvort það var í Eyjafirði eða Hörgárdal. Ég þurfti að ákveða hvar handritið væri ritað, hverjir áttu það og hvað á daga þess hefði drifið. Ég fékk ráðleggingar hjá fræðimönnum um það hvað væri líklegt og hvað væri mögulegt. Ég reyndi að semja fjörlega sögu sem hefði þó getað gerst. Ég dró líka meðvitað fram konur í skálduðu hlutunum, því hin skrásetta saga handritsins er mörkuð karlmönnum en við vitum samt að handrit voru í eigu kvenna og gengu gjarnan í gegnum kvenlegg í fjölskyldum.“