Arnaldur Indriðason hélt erindi fyrir fullu húsi á alþjóðlegu ráðstefnunni Heimur handritanna sem stofnunin stóð fyrir 10.–12. október. Arnaldur talaði í erindi sínu um gildi handritanna og íslenskra fornbókmennta fyrir menntir og mannlíf á Íslandi samtímans.
Heimur handritanna er stór alþjóðleg ráðstefna sem haldin var í tilefni af því að 350 ár eru liðin frá fæðingu Árna Magnússonar. Illugi Gunnarsson mennta- og menningamálaráðherra setti ráðstefnuna fyrir fullu húsi. Þá tók Arnaldur Indriðason rithöfundur til máls og flutti opnunarfyrirlestur. Arnaldur kom víða við í erindi sínu, talaði um það sem ungir rithöfundar geta lært af hinum fornu textum og sagði sömuleiðis frá því hvernig hann horfði til Konungsbókar Eddukvæða þegar hann leitaði að sönnum verðmætum andstætt froðuverðmætunum á árunum fyrir hrun.
Fornsögurnar og samtíminn
Í erindi sínu sagði Arnaldur meðal annars að við mættum aldrei gleyma mikilvægi handritanna og verðum sífellt að halda þeim arfi sem þau varðveita að nýjum lesendum, nýjum kynslóðum svo ekki dragi úr þýðingu hans. Hann sagði enn fremur að fornbókmenntir okkar eigi að spegla sig tíðarandanum hverju sinni og vekja upp umræður og nýjar hugmyndir og þola stöðuga endurskoðun. Hann benti á að þó að menn hefðu lengi horft til hins sigurreifa víkings þegar fornsögurnar væru annars vegar þá væri samfélagsgerð þeirra mun flóknari, meðal þeirra sem hefðu komið til landsins í öndverðu hefðu verið karlar og konur með ólíkar trúarhugmyndir og af ólíkum þjóðfélagsstigum. Fornsögurnar hefðu þannig speglað nútímasamfélagið í öllum sínum fjölbreytileika.
Eigum að gleðjast yfir hinum nýju miðlum
Arnaldur sagði að það hafi lengi verið árátta þessarar þjóðar að vilja tjá sig á rituðu máli og að við hefðum aldrei haft betra tækifæri til þess en nú á dögum með hinum nýju samfélagsmiðlum: „Það er orðið eins og hver annar heimilisiðnaður að segja frá með hinu skrifaða orði, leika sér með tungumálið, þróa það og auka notkunarmöguleika þess. Netnotkun er óvíða meiri en hér á landi, hér eru allir á facebook, og hér eru allir að blogga um stórt og smátt allan liðlangan daginn og hér eru allir að tísta í ofanálag. Við eigum að fagna því og gleðjast yfir nýjum miðlum og hvernig tungumál fornritanna birtist okkur á degi hverjum í hinu nýja rafræna formi.“
Erindið í heild sinni
Við Íslendingar höfum alltaf þessar miklu áhyggjur af tungumálinu. Við heyrum sagt að enskan sé að ganga af íslenskunni dauðri með gengdarlausum árásum upp á hvern dag. Árásarherinn er skemmtiefni af öllu tagi, tónlist, tölvuleikir, sjónvarpsþættir, bíómyndir. Menningarheimur enskunnar litar allt það sem mótar tjáningarmáta fólks, hegðun, útlit og auðvitað ekki síst tungumálið. Ekki er um að ræða séríslenskt fyrirbrigði heldur þvert á móti alþjóðlegt, áhrif hins enskumælandi heims teygja sig út um allar koppagrundir og eru alls ekki bundin við Ísland. Fleiri þjóðir en við hafa áhyggjur af sínu tungumáli í því samhengi. Okkar sérstaða er hins vegar sú að við erum ekki fleiri en raun ber vitni og áhrifin eru fljót að koma fram, ekki eingöngu með breyttum talsmáta og nýjum slettum heldur er nú talað um breytingar á setningagerð. Grundvallarbreytingar á tungumálinu. Við höfum haft þessar áhyggjur áður og munum hafa þær áfram og það er sjálfsagt að hafa þær nú á tímum nýrra samskiptamiðla. Við ættum samt ekki að örvænta. Íslensk tunga virðist hafa sérstakan aðlögunarmátt, hún getur bæði endurnýjað sig og haldið í hið forna í leiðinni vegna þess að grunnurinn er sterkur og kannski sterkari en við gerum okkur grein fyrir. Ólíkt mörgum öðrum tungumálum sem eiga undir högg að sækja í litlum menningarsamfélögum, á íslenskan eina óvéfengjanlega grunnstoð sem hefur alltaf verið varnarvirki hennar og heimahöfn og það eru íslensku handritin.
Fróðlegt er að velta því fyrir sér hvar við værum stödd án þeirra. Án þeirrar visku sem þau geyma um allt hið mannlega í fari okkar. Án tungutaksins sem þau varðveita og við notum enn í dag. Án Njáls og Auðar. Án Hallgerðar og Egils. Ef enginn hefði bent okkur á það strax í upphafi að maður er manns gaman og að vits sé þörf þeim er víða ratar. Ef við ættum engan Gretti Ásmundarson. Enga Guðrúnu Ósvífursdóttur. Væri það ekki snauður heimur? Auðvelt er að sjá fyrir sér sumar augljósustu og einföldustu afleiðingarnar. Án handritanna hefði Jónas Hallgrímsson aldrei getað ort Gunnarshólma. Halldór Laxness aldrei skrifað Íslandsklukkuna. Í dag er í tísku að tala um grunnstoðir samfélagsins og að, að þeim þurfi að hlúa. Við megum ekki gleyma að tala um grunnstoðir íslenskrar menningar. Og eins eigum við alltaf að hafa hugfast að málið sem við tölum, íslenskan, er eina tungumálið í heiminum sem gefur milliliðalausan aðgang að þessum handritum, að þeirri veröld sem í þeim birtist, hvort sem það eru Íslendingasögurnar, Sturlunga, Eddukvæðin eða hvað annað sem ritað er á hin gömlu skinn. Það er ekki svo lítil meðgjöf. Íslenskan er lykillinn að þessum fornu sögum og um leið eru handritin lykillinn að íslenskunni.
Þetta samspil hefur þjónað okkur vel í gegnum tíðina og mun gera það áfram og tryggja viðgang tungumálsins vegna þess að sögur og kvæði sem handritin geyma búa yfir þeim galdri að höfða til okkar á öllum tímum. Það er engin ástæða til þess að ætla að það breytist neitt í framtíðinni. Tíminn hefur ekki megnað að draga úr þýðingu handritanna af þeirri einföldu ástæðu að þau geta aldrei verið okkur dauður hlutur, hafður upp á punt í sérsmíðuðum hirslum. Þvert á móti eru þau síkvik í menningarheimi okkar og alsjáandi á mannlegt eðli - það eðli sem lítið breytist þótt ár og dagar líði. Það á ekki minnstan þátt í hinu ákjósanlega samspili fornritanna og tungunnar. Þau eru í senn forgömul og síung. Í þeim eru settar fram athugasemdir og spurningar um hegðun mannsins og þeim er svarað með þeim hætti að enn í dag er litlu við að bæta. Í þeim má finna vísdómsorð sem gilda á öllum tímum og eiga við um alla tíma og svara spurningum um okkur sem manneskjur í fortíð og nútíð og framtíð - um kosti okkar vissulega - en ekki síður galla. Fornritin eiga alltaf erindi við okkur. Við höfum getað leitað til þeirra beint og fundið þar einskonar þjóðarsál eða kjarna í tilvist okkar fámennu eyþjóðar.
Eitt sem þau kenna okkur er að fara varlega þegar við sýslum með fé. Dýrkeypt hefur okkur reynst að hundsa þau varnaðarorð. Handritin kenna okkur að reyna að vera ekki eitthvað annað en við erum. Þau kenna okkur að gleyma ekki uppruna okkar. Við erum ekki bankaþjóð. Við erum hin fullkomna andstaða við bankaþjóð. Við erum bókaþjóð. Við ættum ekki að gleyma því eða gera lítið úr því eða þykja það síðra hlutskipti en viðskiptavafstur hverskonar. Staðreyndin er sú að þótt við séum kannski ung að árum ef litið er til sögu Evrópu, erum við gömul menningarþjóð. Handritin hafa séð til þess. Þau eru í raun ómetanleg stærð í okkar menningarlegu tilvist og því er óþarfi að gleyma. Það má vera að allt hafi farið í vaskinn hjá bankaþjóðinni en kannski að upp úr öskunni hafi bókmenntaþjóðin risið á ný og sé sterkari en áður. Við erum of fámenn til þess að einblína í sífellu á hagvöxt í peningum. Miklu fremur eigum við að mæla hagsæld í menningu og þekkingu og menntun. Það er sú eina vísitala sem máli skiptir. Hagvöxtur menningar.
Þetta tvennt vinnur auðvitað saman ef menn fara ekki fram úr sér og halda skynsamlega á spilunum. Því verður ekki neitað að á Íslandi ríkti hámenning á miðöldum. Þá var hér velsæld með ábatasamri verslun og siglingum til fjarlægustu staða, eins og Helgi Guðmundsson rekur í fróðlegri ritgerð í bók sinni Handan hafsins. Hann telur upp nokkrar ástæður þess að hagfelldar aðstæður sköpuðust hér á Norður-Atlantshafi til þess að leggja grunninn að hámenningu, sem skýrast kom fram í ritlistinni. Hann bendir á að menningin hér hafi þróast í nánu sambandi við menningu Vestur-Evrópu og mótast af merkilegu samspili tveggja þátta sem við fyrstu sýn mætti ætla að hefðu unnið hvor gegn öðrum: Annars vegar hið mikla samband sem Ísland hafði við umheiminn og hins vegar eingangrun landsins frá umheiminum, fjarlægðin til annarra landa. Þrjár ástæður nefnir Helgi sem skýringu á því hvers vegna hér blómstraði hámenning. Ein undirstaðan var verslun með dýrar og eftirsóttar vörur, sem komu að talsverðu leyti frá Grænlandi og jafnvel enn lengra úr vestri. Stöðugar siglingar Íslendinga til fjarlægra staða. Og loks sókn eftir menntun. Íslendingar þekktu vel til í fjarlægum löndum og gengu í skóla til dæmis í Englandi, Þýskalandi og Frakklandi. Þannig lágu mjög víða leiðir þeirra sem stóðu fyrir íslenskri hámenningu. Og Helgi bætir við: Þetta var margra heima sýn.
Þannig er ekki nóg með að gömlu rithöfundarnir fylli okkur andagift og móti stíl okkar og veiti okkur listræna leiðsögn. Þeir eru ekkert síður ákjósanlegar fyrirmyndir þeirra sem ætla sér að gerast rithöfundar í dag. Ætti það ekki einmitt að vera eftirsótt og nauðsynlegt þeim sem vilja fást við menningu og listir að einhverju marki, að öðlast margra heima sýn? Er það ekki lykillinn að menningu á hvaða tíma sem er? Er það ekki sá vegvísir sem við eigum að fara eftir, og ekki síst í dag, að vera opin fyrir umheiminum? Fjarlægðin frá öðrum þjóðum varð til þess að handritin voru skrifuð á íslensku. Sambandið við umheiminn varð til þess að úr urðu heimsbókmenntir. Er þetta ekki ennþá uppskriftin fyrir íslenska rithöfunda? Að lifa og hrærast í mörgum og ólíkum heimum, en skrifa á sinni tungu hér í fjarlægðinni?
Fornsögurnar hafa átt samleið með þjóðinni næstum því frá upphafi og kannski eru þær með einhverjum hætti sjálfssprottnar úr baráttu landnema í nýju landi fyrir tilverurétti sínum. Þær eru ritaðar á sínum eigin forsendum á tungumáli allra íbúa landsins. Þær eru ólíkar öðru sem skrifað var á miðöldum hvort sem það kölluðust kraftaverkasögur eða postillur. Fjarlægðin ræður því að flest rit eru samin á íslensku, tungu landsmanna, svo vitnað sé aftur í Helga Guðmundsson, og fjarlægðin ræður því að þau eru frumleg og annars eðlis en það sem höfundar eru að fást við á sama tíma annars staðar í heiminum. Í þeim er best varðveittur forn norrænn og germanskur sagnaarfur og þau virðast gerð af innri þörf til þess að segja frá og kenna og skrásetja atburði úr lífi ungrar þjóðar. Fornsögurnar eru með einhverjum hætti frjálsar að gerð og innihaldi og lúta ekki öðrum lögmálum en þeim sem höfundar þeirra settu þeim. Þeir nota það sem er tiltækt úr umhverfi sínu til þess að segja góða sögu, og segja góða sögu enn betur, og Íslendingar trúðu því að sögurnar geymdu sannleikann um fyrstu Íslendingana, víkingana, bardagakappana, ljóðskáldin, landkönnuðina. Það dugði okkur lengi vel. Fólkið sem lifði frá einni hungursneyð til annarrar árhundruðin eftir Þjóðveldistímann gat ornað sér við minninguna um hina glæstu tíma. Núna vitum við að kannski er ekki sagt satt og rétt frá í öllum tilvikum en það skiptir ekki máli vegna þess að verðmæti sagnanna liggur ekki endilega í sagnfræðilegum staðreyndum. Nú á dögum hlýtur gildi þeirra fyrst og fremst að liggja í frásagnarlistinni. Það má vera að menn séu hættir að trúa á þær sem heilagan sannleik en það fellur aldrei skuggi á þá miklu skáldskaparlist sem sögurnar geyma. Hún er hrein og svikalaus.
Fyrir okkur sem skrifum á íslensku og vinnum með íslenskt mál er ekki ónýtt að eiga slíkan bakhjarl þegar við þurfum að minna okkur á góðan stíl og ómengaða frásagnargleði. Höfundar sagnanna kunnu að greina frá atburðum og segja frá á þann hátt að við sem sinnum ritstörfum í dag erum ennþá að læra af þeim. Í þeim leynist sú skáldskaparlist sem engin ritlistarnámskeið geta skákað. Þær kenna okkur að fara sparlega með orðin og að hvert orð skiptir máli og að ein vel samin setning getur geymt í sér meiri sannleika en finna má í þykkum bókum. Þær kenna okkur að tyggja ekki hlutina ofan í lesandann heldur segja frá því sem máli skiptir og halda áfram með söguna og gæta þess að fara ekki út í langorðar predikanir. Þær eru eins fjölbreytilegar og þær eru margar. Sumar eru hetjusögur og sumar hreinar og beinar glæpasögur (í Gísla sögu Súrssonar gengur fjöldamorðingi laus sem drepur alla sem sofa hjá systur hans!) en fyrst og fremst eru þær skemmtilegar frásagnir með líflegri persónusköpun, spennandi sviðsetningum og samtölum og tilsvörum sem ennþá lifa í því sem við segjum og gerum. Þær eru ástarsögur og hefndarsögur og fjölskyldusögur og sögur um svik og vígaferli með ofsafengnum bardagalýsingum og ólíkt því sem nú tíðkast voru höfundar þeirra óhræddir við að gera skúrkana að hetjum. Höfundar þeirra kunnu einnig að notfæra sér list hins ósagða. Að notfæra sér þögnina sem allur góður skáldskapur hvílir á. Það sem gefið er í skyn en aldrei sagt berum orðum. Þeir skilja eftir spurningar sem við þurfum sjálf að leysa úr vegna þess að textinn fyrir augum okkar segir aðeins hálfa sögu, tælir lesandann áfram og skilur eftir með sitt eigið hyggjuvit og innsæi og ímyndunarafl til þess að ráða í orðin. Við erum enn í dag að reyna að leysa úr þeim. Tilsvörin og orðheppnin hafa lifað með þjóðinni. Nú þykir upphefð í því að kallast frasasmiður og vera frasakóngur, ef ég skil það rétt. Gaman er að benda á að hvergi er að finna meiri og betri frasasmiði en sagnahöfundana gömlu.
Við, sem höfum fengið það hlutverk í hendur undanfarin ár, með vaxandi útgáfu á íslenskum bókum erlendis, að standa fyrir svörum um íslenskar bókmenntir, kynna þær erlendum lesendum og tala um þær á bókamessum og í fjölmiðlum, erum einatt spurð um þennan mikla bókmenntaáhuga sem sagt er að ríki hér uppi á Íslandi. Um alla þessa gríðarlegu bókaútgáfu sem hér er stunduð. Hvernig við getum gefið út átta hundruð nýja bókatitla á hverju ári. Um allan þann mikla lestraráhuga sem hlýtur að knýja þessa ógnar vél áfram. Um alla þá sem skrifa þessar bækur. Af hverju eru svona margir rithöfundar og skáld og tónlistarmenn og kvikmyndagerðarmenn og myndlistarmenn og allskonar listamenn í þessu litla landi? Af hverju fær þetta fólk sér ekki bara vinnu? Og maður veit ekkert hvað maður á að segja vegna þess að frá okkar sjónarhóli er þetta sjálfsagður hluti af tilverunni. En það svar dugar ekki áhugasömum og forvitnum fyrirspyrjendum og við klórum okkur í kollinum og reynum að svara einhverju meiru. Ástæðurnar eru ugglaust nokkrar, segjum við og tölum um einangrunina hér norður í íshöfum, sem varð til þess að við urðum að reiða okkur á okkar eigin skemmtanir, en svo komum við alltaf að því sama: Íslendingar eru menningarþjóð frá fornu fari. Við erum bókmenntaþjóð. Og af hverju? erum við enn spurð. Það er aðeins eitt svar til við því: Vegna handritanna. Vegna þess að það atvikaðist þannig að við byrjuðum að skrifa bækur um leið og hér þróaðist íslenskt samfélag og við höfum aldrei látið af þeirri iðju.
Við reynum að skýra það út fyrir fólki að í gömlu handritunum sé að finna merkilegar heimildir um það hvernig samfélag verður til og hvernig það leysist upp og að slíkar frásagnir séu einstæðar, að minnsta kosti í okkar vestræna heimi. Að fræðimenn hafi bent á að Íslendingasögurnar séu farvegur samfélags til þess að skilgreina sjálft sig í minnstu smáatriðum. Þær fjalli ekki síst um lagaumhverfið og séu eins konar leiðarvísir um það réttarríki sem þróaðist í öndverðu þegar hér var ekkert framkvæmdavald: Þegar við vorum villta vestrið. Þær fjalli um fornar siðvenjur og heitustu ástarmál og hvernig menn komust ekki hjá því að verja sæmd sína. Að hefndin leiki stórt hlutverk í lífi fólks, hefndarskyldan hvíli á herðum þeirra sem telji sig órétti beitta, og þær fjalli um langrækni, öfund, losta, allar syndir mannanna sem hægt er að hugsa sér, en líka tryggð og vináttu, og þær séu fullar af húmor. Þær segi vissulega frá stórum hetjum en einnig lítilmótlegustu persónum. Þær segi frá leit að reglu í samfélaginu, sáttmála sem samfélag hlýtur að verða að lifa eftir, og þeim mannlegu eigindum sem við vildum annaðhvort forðast eftir mætti eða hlúa að, um leið og ný þjóð varð til.
Það er ekki svo lítið að eiga slíkar sjálfshjálparbækur sem fylgt hafa þjóðinni í blíðu og stríðu. Því það hafa handritin svo sannarlega gert. Þau hafa ekki átt sjö dagana sæla í gegnum tíðina, ekki fremur en fólkið í landinu. Þau liggja í tunnum á hafsbotni. Þau hafa verið étin í hungursneyðum. Notuð í skóleppa. Þau hafa lent í eldgosum og jarðskjálftum og horft upp á eigendur sína drepast úr dauðaplágum hvers konar. Og ekki síst hafa þau orðið eldinum að bráð. Handritin eiga sínar hetjur sem gott er að minnast á hátíðarstundum eins og þessari. Við höldum hér upp á afmæli Árna Magnússonar. Brynjólfur Sveinsson var einnig ötull bókasafnari. Enn aðrir koma við sögu. Hugsanlega sálmaskáldið Hallgrímur Pétursson. Enginn veit hvernig Brynjólfur fékk Konungsbók eddukvæða í hendur en einhver fallegasta myndin sem við freistumst til þess að teikna upp úr sögu handritanna er sálmaskáldið á leið í Skálholt með Konungsbók undir arminn að koma henni í hendur Brynjólfi biskupi. Er hún sönn? Hvers vegna ekki? Kannski eins sönn og íslensk fornsaga getur orðið.
Frægasti einstaki atburðurinn í hamfarasögu handritanna er auðvitað bruninn í Kaupmannahöfn árið 1728. Eins og kunnugt er brást Árni Magnússon seint við eldinum en Jón Grunnvíkingur Ólafsson, skrifari og einhver auðmjúkasti og þrælkaðasti þjónn sem íslensk fræði hafa eignast - svo gripið sé til orða Björns Th. Björnssonar - bjargaði því sem bjargað varð. Það var ekki síst Grunnvíkingnum að þakka, ásamt Finni Jónssyni, síðar biskupi, og Jóni Axelssyni, ungum klæðskeranema, að mörg og mikilvæg handrit urðu ekki eldinum að bráð heldur björguðust. Björn hefur fundið því orð: „Það er undarlegt að hugsa sér þessa þrjá ungu menn, biskupsefnið, fátækan skrifarann og klæðskerasveininn hlaupa í eldsbjarmanum með fangið fullt af skinnbókum og hlaða þeim í vagninn, og inn aftur, ferð eftir ferð, meðan eldurinn nálgaðist og hitinn magnaðist, þar til ekki varð lengur að staðið. Hvað hefði gerzt, ef þeir hefðu ekki átt þá taug sem til þurfti, en hugsað meira um að bjarga sínu eigin skinni eða farið að dæmi borgarlýðsins og reynt að auðga sig á upplausninni? Hvar væru þá íslenzkar gullaldarbókmenntir?“
Einhvern veginn þannig er saga handritanna í hugum okkar sem horfum á þau utan frá og erum ekki innmúruð í fræðin. Það liggur alltaf einhver hræðilegur voði yfir þeim. Þau finnast í aumustu moldarkofum, týnast og brenna og sökkva í hafið og eru eins konar munaðarleysingjar sem fá ekki einu sinni að koma heim en kveljast í árhundruð hjá vondu stjúpmóður okkar allra, Dönum. Það er aldrei hátt til lofts og vítt til veggja þar sem þau dvelja. Að þeim var lengst af jafn fátæklega búið og þjóðinni á sinni tíð. Líklega er það einnig fyrir þá sök sem þau eiga svo tryggan stað í hjarta okkar. Bústaðir þeirra voru ekki skrauthallir veraldar heldur örreytiskot við myrkasta útjaðar heimsins, þar sem þau hafa legið undir skemmdum í reyk og sóti og skít. Þau bera þess líka fögur merki að hafa lifað með þjóðinni eins og Konungsbók getur best vitnað um. Hún er með öllu skrautlaust ritverk sett í ódýrasta vasabrot eins og verstu sjoppubókmenntir dagsins og laus við listfengi og óþarfa prjál í ytri búnaði. Þvert á móti er hún tötrum klædd bókardrusla, sótug upp fyrir haus, skítug og tætt, sjálf fátæktin og útjaskað allsleysi landsmanna lifandi komið. Það er auðsætt á henni að hún hefur lifað með sínu fólki og upp á þess kjör og, eins og stundum má segja um þjóðina sem bjó hana til, þá vantar í hana nokkrar blaðsíður. Konungsbók er af þeim sökum ekki endilega rétt nafngift. Það er ekkert konunglegt við hana. Hún er þvert á móti andstæða alls þess sem kallast má konunglegt. Hún hefði með réttu mátt heita Alþýðubókin.
En líkt og er með önnur íslensk handrit og handritsslitur skyldu menn vara sig á því að dæma verk eins og Konungsbók eftir ásýndinni. Þótt við ættum aðeins hana eina værum við rík að bókmenntum og hefðum lagt stóran skerf til heimsmenningarinnar. Hún geymir ómetanlegar heimsbókmenntir og þegar við skiljum ekkert lengur í því hvert Ísland stefnir er gott að eiga hana að, vegna þess að hún minnir okkur á að okkar fegursta og dýrmætasta eign er útslitin, vesæl bókardrusla. Ekki risavaxnar bankastofnanir sem stóðu á brauðfótum. Ekki íslenska fjármálasnilldin sem aðrar þjóðir áttu að taka sér til fyrirmyndar. Ekki Kárahnjúkavirkjun og útlensk álfyrirtæki. Ekki frystigeymslur austur í Kína. Ekki olíuauðlindir á Drekasvæðinu. Þegar við viljum hugsa til raunverulegra verðmæta sem aldrei láta sig varða neitt um bóluáhrif eða hagvöxt eða galdeyrishöft eða efnahagshrun og alþjóðabanka, þá er gott að hugsa til Konungsbókar.
Það rann upp fyrir mér þegar ég leitaði að einhverju sem fól í sér sönn verðmæti andstætt froðuverðmætunum og skrifaði litla ævintýrasögu um íslenskan prófessor í Kaupmannahöfn á sjötta áratugnum sem misst hafði okkar dýrmætu Konungsbók úr höndum sér og reyndi að ná henni til baka. Þegar sagan kom út árið 2006 hafði bókaþjóðin á fáeinum árum stökkbreyst í bankaþjóð og sagan af prófessornum átti að vera einhvers konar andmæli gegn þeirri vissu sem þá ríkti, að peningar einir skiptu máli í lífinu. Áminning um að við hefðum með einhverjum hætti glatað því sem meiru skipti, glatað uppruna okkar, glatað Konungsbók. Þá flugu auðmenn hér um loftin blá á einkaþotum svo varla sást til sólar. Litlar kammersveitir léku undir borðum hinna nýríku. Manngildið var metið í himinháum kúlueignum og óskiljanlegum kúlulánum. Og menn borðuðu gull suður undir dómkirkjunni fögru í Mílanó.
Þá var gott að geta sótt í handritin og þannig getum við alltaf leitað í þann bókmenntalega fjársjóð sem þau geyma þegar á reynir og okkur vantar leiðsögn í gegnum þokuna. Sagnaarfur okkar, varðveittur í handritunum, minnir sífellt á sig og verður okkur að söguefni þegar við þurfum á því að halda að staldra við og draga andann og sjá hvert við stefnum. Hann getur aldrei verið dauður bókstafurinn. Hann er með einhverjum hætti í öllu því sem við gerum og fylgir okkur hvert sem við förum. Hann er í kvæðum okkar bestu skálda. Hann er í myndverkum listmálaranna. Við sjáum þennan arf í litríkum tónlistaruppfærslum Bjarkar. Hlustum á hann syngja með Of Monsters and Men bak við Vífilsstaðarspítalann. Hann er með Bubba á Þorláksmessutónleikunum. Einar Kárason hefur gert úr honum nýjar Sturlungasögur. Stærsti draumurinn er alltaf að kvikmynda Njálu og ef við viljum gera okkur í hugarlund hvað þau góðu skáld sem skrifuðu handritin væru að fást við í dag, jafnvel hvernig þau töluðu og sungu, þurfum við ekki annað en að horfa á eftir Megasi ganga upp eftir Bankastrætinu.
Það er einstakt, svo vitnað sé í Gísla Sigurðsson sérfræðing hjá Árnastofnun, að eiga svo gamla texta sem draga upp jafn breiða og heildstæða mynd og íslenskar fornbókmenntir gera af löngu horfinni menningu. Menningu sem hann bendir á að teygi rætur sínar langt aftur fyrir kristni og þann bóklærdóm sem þróaðist við Miðjarðarhaf og breiddist þaðan út um Evrópu og allar aðrar álfur heimsbyggðarinnar. Og það er einstakt, segir Gísli ennfremur, að tungumálið sem textarnir eru skrifaðir á skuli vera svo líkt tungutaki þess nútímafólks sem byggir Ísland að enn sé hægt að lesa þessa fornu texta án þess að leggja á sig sérstakt nám í útdauðu máli.
Það eru ekki margir rithöfundar sem getað gengið í annan eins ritlistarskóla. Ekki margir sem hafa þetta milliliðalausa samband við höfunda miðaldarita. Handritin kenna okkur einnig að skrumið sem fylgir bókaútgáfu í dag er og verður stundarfyrirbrigði. Þau krefjast þess ósjálfrátt að þeim sé sýnd virðing, ekki vegna þess að þau trani sér fram í okkar menningu og hrópi á athygli heldur þvert á móti vegna hins gagnstæða. Þau láta einstaklega lítið yfir sér og hafa aldrei þurft á neinni auglýsingamennsku að halda. Þau voru ekki skrifuð til þess að krefjast metsölu. Þau voru aldrei auglýst upp í rjáfur. Þau bitust aldrei um nein bókmenntaverðlaun. Þau eru bara þarna eins og fallegt landslag sem við þurfum stundum að minna okkur á að taka eftir þegar við eigum leið framhjá. Þau hafa alltaf verið eign þjóðarinnar. Ekki einstakra höfunda. Ekki bókasafnara. Ekki biskupa eða greifa eða danskra kónga. Ekki Árna Magnússonar eða Jóns Grunnvíkings. Þau eru eign Íslendinga. Þau hafa vissulega legið í erlendum söfnum og sum gera það enn en samt eru þau okkar. Sagt er að það taki sálina drjúgan tíma að snúa heim þegar við komum úr löngum ferðalögum. Þegar stærstu dýrgripirnir komu aftur til Íslands þann 21. apríl árið 1971 var engu líkara en sálin í okkur yrði loksins heil eftir langt ferðalag. Og það var í rauninni ekki fyrr en þá að baráttu okkar fyrir fullu sjálfstæði lauk. Slíkan sess skipa handritin í tilveru okkar.
Við megum aldrei gleyma mikilvægi þeirra og verðum sífellt að halda þeim arfi sem þau varðveita að nýjum lesendum, nýjum kynslóðum, svo að ekki dragi úr þýðingu hans, hann falli í gleymsku eða verði afskiptaleysi eða áhugaleysi að bráð. Fornbókmenntir okkar eiga að spegla sig í þeim tíðaranda sem uppi er hverju sinni og vekja umræður og nýjar hugmyndir og þola stöðuga endurskoðun. Við höfum lengi horft til hins sigurreifa víkings þegar við ræðum fornsögurnar. Samfélagsgerðin var hins vegar mun flóknari en mynd víkingsins gefur til kynna. Meðal þeirra sem komu til landsins í öndverðu voru karlar og konur með ólíkar trúarhugmyndir og af ólíkum þjóðfélagsstigum, svo vitnað sé aftur í Gísla Sigurðsson. Hann bætir við: „Með því að jafna kynjahlutföll og hampa fjölmenningunni meðal landnámsmanna getum við breytt hinni gömlu staðalímynd sem horfði fyrst og fremst með aðdáun til vopnaðra norrænna víkinga standa uppi í stafni að höggva mann og annan og trúa á mátt sinn og megin.“ Þannig geta fornsögurnar speglað nútímasamfélagið í öllum sínum fjölbreytileika.
Handritunum var ekki bjargað frá tortímingu til þess að þau gætu orðið ósnertanlegar skrautfjaðrir. Við megum aldrei láta eins og þau gegni aðeins hlutverki í lífi okkar á sérstökum tyllidögum. Við megum aldrei fá það á tilfinninguna að þau séu aðeins fyrir spekinga í fornfræðum sem setja á sig hvíta hanska varðveislunnar og opna þau varlega eins og líkskurðarmenn myndu opna dauðan skrokk. Þeim var ekki bjargað til þess að einangra þau frá fólki. Sá fjársjóður sem þau geyma eru sjálft fólkið. Tungumál þess. Veröld þess og vitund.
Miðaldirnar tala til okkar enn í dag í gegnum handritin og við tölum sömuleiðis mál þeirra. Við notum sömu orðin og við finnum þar til þess að tjá tilfinningar okkar. Við erum ekki aðeins vörslumenn handritanna og rannsökum þau og hýsum þau og sjáum til þess að þau falli ekki í gleymsku. Við erum lifandi notendur þess sama máls og þau eru rituð á og það er spurning hvort við töluðum íslensku enn í dag ef við hefðum ekki átt handritin að bakhjarli. Við eigum að vera stolt af því og halda því á lofti og skilja að þetta sérstaka, beina samband sem við höfum við kvæði og frásagnir miðalda er einstakt og dýrmætt og þess virði að varðveita eftir megni svo við getum sagt það sama eftir önnur hundrað ár. Og önnur þúsund ár. Þau eru vissulega eign alls heimsins og geyma sannar heimsbókmenntir, en þau eru líka okkar eign, varðveita sögu okkar og tilveru, orðin sem þau geyma svo samtvinnuð þjóðinni að þau verða aldrei skilin frá tilvist hennar. Líkt og þeir sem báru handritin úr eldinum forðum verðum við að eiga þá taug sem til þarf að gera veg þeirra sem mestan.
Það hefur löngum verið árátta þessarar þjóðar að vilja tjá sig í rituðu máli og við höfum aldrei haft betri tækifæri til þess eða handhægari tæki en nú á dögum, með hinum nýju samfélagsmiðlum. Það er orðið eins og hver annar heimilisiðnaður að segja frá með hinu skrifaða orði. Leika sér með tungumálið. Þróa það og auka notkunarmöguleika þess. Netnotkun er óvíða meiri en hér á landi. Hér eru allir á feisbúkk og hér eru allir að blogga um stórt og smátt allan liðlangan daginn. Og hér eru allir að tísta í ofanálag. Við eigum að fagna því og gleðjast yfir nýjum miðlum og hvernig tungumál fornritanna birtast okkur á degi hverjum í hinu nýja rafræna formi. Við erum ekki lengur upp á örfáa skrifara komin til þess að festa sérvaldar sögur á skinnblöð. Núna skrifum við, hvert og eitt, handrit byggð á okkar lífi og lífi okkar nánustu og gefum út á svipstundu, miðlum fróðleik, segjum sögur, tiltökum lífsgildi, setjum fram skoðanir. Og gleymum því ekki að aldrei í sögunni hefur verið jafn auðvelt að gera það sem gömlu rithöfundunum þótti mest um vert, að öðlast margra heima sýn. Hlýtur það ekki að vera grunnurinn að íslenskri menningu, þá eins og nú?
Má ég nefna að lokum hversu ánægjulegt það er að svona myndarleg alþjóðleg ráðstefna skuli vera haldin hér á landi um eins mikilvægt efni, fróðlegt og ekki síst skemmtilegt og handritin okkar.
Njóti sá er nam,
heilir þeir, er hlýddu ...,
... eða, svo tekin séu upp kveðjuorðin í Grettissögu: Hafi þeir þökk er hlýddu en sá litla sem krabbað hefir.
Arnaldur Indriðason,
Heimur handritanna í Norræna húsinu 10. október 2013