Þann 13. nóvember 1663 fæddist Árni Magnússon sem átti eftir að verða mesti handritasafnari Íslands. Á afmælisdegi hans hefur um nokkurra ára skeið verið haldinn fyrirlestur tengdur nafni hans. Í þetta sinn verður fyrirlesturinn haldinn á Akureyri og það er Margrét Eggertsdóttir sem les fyrir:
„Í fyrirlestrinum er ætlunin að vekja athygli á hinu magnaða handritasafni Árna Magnússonar og hvernig þessi stofnun vinnur að því að rannsaka það og miðla því til annarra. Og í ár hugsum við þennan viðburð fyrst og fremst fyrir almenning til að fá innsýn í það starf sem hér fer fram og hvaða möguleikar eru í því að vinna með handrit. Hvaða fróðleik má fá út úr því?"
Hvað kveikir helst í fólki varðandi handritin?
„Mín reynsla er sú að það að fá að vinna sjálfur með handrit og komast þannig í þessa beinu snertingu við fortíðina er það sem heillar flesta. Mörg handrit eru lítt rannsökuð og því getur sá sem vinnur með slíkt alltaf átt von á að koma auga á eitthvað sem aðrir hafa ekki séð áður. Ég lærði bókmenntafræði upphaflega og ætlaði aldrei að verða handritafræðingur. En ég komst upp á lag með handritavinnu þegar ég fann að ef maður er t.d. að rannsaka kvæði getur maður eiginlega farið baksviðs með því að skoða eiginhandarrit skáldsins og handrit sem skrifuð eru upp eftir því, horft á verkið að tjaldabaki með því að gera sér grein fyrir hvernig kvæðið var skrifað upphaflega og hvernig það hefur varðveist.
Í fyrirlestrinum er ég samt ekki að fara að tala um leitina að hinum upprunalega texta, þó það hafi í gegnum tíðina oft þótt merkilegast og eftirsóknarverðast, það sem er elst og upprunalegast. Áður fyrr var mjög almennt sjónarmið að pappírshandrit væru ekki jafn merkileg og skinnhandrit af því þau eru yngri. En pappírshandrit getur vel geymt mjög gamlan texta og það getur einnig verið mjög merkilegt af ýmsum öðrum ástæðum."
Handritið er ekki bara texti heldur líka forngripur og jafnvel gjaldmiðill.
„Ég ætla að tala um að hvert og eitt handrit getur verið spennandi heimur út af fyrir sig því við getum fengið svo miklar upplýsingar út úr handritinu ef við skoðum það sem hlut eða smíðisgrip. Handritið er ekki aðeins texti heldur líka handverk og það getur verið áhugavert að skoða skreytingarnar, hvernig uppsetning textans er á síðunni, stærð þess og þykkt. Þetta allt fær mann svo til að velta því fyrir sér í hvaða tilgangi það var skrifað. Var handritið gert til skemmtunar, fróðleiks eða til að syngja uppúr því? Svo setti fólk saman handrit með efni sem okkur virðist sundurlaust en sem því fannst áhugavert og þá varpar það ljósi á eigandann og áhugasvið hans. Það bjó líka til handrit handa öðrum og gaf, t.d. í brúðkaupsgjöf og í raun má segja að handrit hafi í gegnum tíðina verið einskonar gjaldmiðill.
Þessi rannsóknaraðferð hefur gengið undir heitinu “nýja textafræðin” vegna þess að hún felur í sér nýjar rannsóknarspurningar og nýja nálgun. Hún býður upp á að við sjáum handritin frá fleiri hliðum en áður; þau geta varpað ljósi á líf og starf þeirra sem áttu handritin og notuðu þau. Handritin geta þannig verið grunnur að víðfeðmum rannsóknum sem auðvelt er að heillast af."
Handritarannsóknir hafa lifnað við fyrir framan nefið á mér.
„Nýja fílólógían hefur hleypt nýju lífi í handritarannsóknir og það kemur fram í því að það er komið ungt fólk um allan heim sem hefur áhuga á að rannsaka handritin okkar. Mér finnst þetta hafa gerst fyrir framan nefið á mér frá aldamótum og við sjáum að það eru komnar margar nýjar doktorsritgerðir sem fjalla ekki síður um pappírshandrit en skinnhandrit. Pappírshandrit eru núna tvímælalaust talin áhugavert rannsóknarefni. Ég held að margt hafi skilað okkur þessum árangri, t.d. sumarskólinn í handritafræðum sem var haldinn fyrst 2004. Þarna skiptir miklu máli hvernig kennarar kynna nemendur fyrir heimi handritanna. Að senda nemendur sjálfa á stúfana breytir miklu og að gefa þeim tilfinninguna fyrir að þeir geti komið með ný tíðindi við að grandskoða þessa gripi. Þessi nýja nálgun opnar fyrir okkur menningarheiminn sem handritin eru hluti af. Við það fáum við aðra sýn á tímann og söguna okkar."