Árlegur fundur íslenskukennara sem starfa við erlenda háskóla var haldinn í Humboldt-háskóla í Berlín 13.–16. maí síðastliðinn. Á fundinum var rætt um íslenskukennslu fyrir erlenda námsmenn og kennsluefni sem stuðlar að því að íslenska sé notuð í gegnum leiki, í kennslustofum, við orðabókargerð veforðabókarinnar LEXÍU á þýsku og við notkun gervigreindar í akademísku námi. Sjónum var sérstaklega beint að því mikilvæga starfi kennara sem felst í þjálfun nýrra þýðenda og fræðimanna fyrir komandi kynslóðir sem starfa munu sem fulltrúar Íslands við kynningu á íslenskri tungu og menningu erlendis.
Að þessu sinni varð Berlín fyrir valinu, m.a. vegna þess að háskólinn þar gegnir mikilvægu hlutverki sem miðstöð í kennslu Norðurlandafræða í Þýskalandi. Dagskrá fundarins var mjög fjölbreytt og var hann haldinn á tveimur mismunandi stöðum, í sendiráði Íslands í Berlín og á Norður Evrópu-stofnuninni við Humboldt-háskóla. Kynning á starfsemi íslenskukennaranna var haldin í Felleshúsi við norrænu sendiráðin í Berlín þar sem kennararnir kynntu sér einnig mikilvæga og fjölbreytta starfsemi sendiráðs Íslands sem m.a. felst í útbreiðslu íslenskrar tungu, menningar og lista í Þýskalandi. Málþing um vel heppnaðar kennsluaðferðir í talþjálfun, málfræði, ritun, bókmenntakennslu, leiklist og notkun gervigreindar í íslensku sem erlendu máli var haldið við Humboldt-háskóla í Berlín.
Kennsla í íslensku sem erlendu máli og íslenskum fræðum við erlenda háskóla er mikilvægur þáttur í kynningu á íslenskri menningu og til eflingar íslenskri tungu. Íslensk stjórnvöld styðja við kennslu í íslensku sem erlendu máli við sextán erlenda háskóla í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur umsjón með kennslunni fyrir hönd stjórnvalda.