Skip to main content

Fréttir

Ályktun Málnefndar um íslenskt táknmál

 

7. júní voru tvö ár liðin frá því lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls gengu í gildi. Að því tilefni hefur Málnefnd um íslenskt táknmál lokið skýrslu um stöðu íslensks táknmáls og gert svohljóðandi ályktun:

Málnefnd um íslenskt táknmál ályktar að auka þurfi stuðning hins opinbera á ýmsum sviðum til að framfylgja lögum nr. 61/2011 þannig að íslenskt táknmál og íslenska geti talist jafnrétthá tungumál til samskipta manna í milli. Samkvæmt lögunum er íslenskt táknmál fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra. Er það mat Málnefndar um íslenskt táknmál að táknmálið sé ekki nægilega aðgengilegt og viðurkennt á þeim stöðum sem nauðsynlegt er svo að hægt sé að framfylgja lögunum. Mikið vantar upp á að börnum sé tryggður sá aðgangur að frjóu og jákvæðu málsamfélagi sem þarf til eðlilegrar máltöku og málþroska á því skeiði í bernsku sem mestu skiptir. Til að breyta þessu þarf aðra kennsluhætti í leikskólum og grunnskólum. Auka þarf sýnileika íslensks táknmáls opinberlega og stuðning við fjölskyldur og skóla svo að táknmálið verði eðlilegur hluti af daglegu lífi í samfélagi okkar. Eins og staðan er núna líta margir á íslenskt táknmál sem eins konar byrði eða viðbótarálag fremur en þann sjálfsagða þátt í samfélaginu sem það á að vera. Til þess að döff einstaklingar geti verið fullgildir þátttakendur í samfélagi okkar á öllum sviðum og á öllum aldri þarf að tryggja betur túlkaþjónustu, styrkja framboð á menntun og efla sérfræðiþjónustu við stofnanir samfélagsins sem táknmálstalandi fólk sækir til. Þá þarf einnig að auka rannsóknir á öllum sviðum. Mikilvægast er að huga að börnunum. Tryggja þarf að þau fái gott máluppeldi og að mál þeirra sé viðurkennt og því sé sýnd virðing hvar sem er í samfélaginu. Aðeins þannig öðlast börnin sjálf jákvæð viðhorf til til síns fyrsta máls – íslensks táknmáls – og til döff menningarheims.