Wikisaga, lýsandi heimildaskrá Egils sögu og Njáls sögu, heldur áfram að stækka og dafna. Nú er þar að finna upplýsingar um yfir 500 fræðiritgerðir og -bækur sem fjalla Egils sögu og tæplega 400 um Njáls sögu.
Verkefnið á rætur að rekja til ársins 2011. Þá höfðu þau Svanhildur Óskarsdóttir og Jón Karl Helgason frumkvæði að því að koma á fót þverfaglegri lýsandi heimildaskrá yfir fræðigreinar sem skrifaðar hafa verið um Egils sögu Skallagrímssonar.
Hugmyndin var frá upphafi að þessi rafræna skrá yrði aðgengileg og skiljanleg öllum, lærðum sem leikum. Eins og oft vill verða óx hugmyndinni fiskur um hrygg og nær skráin nú einnig yfir greinar sem skrifaðar hafa verið um Brennu-Njáls sögu.
Í sumar hafa þrír nemendur við Háskóla Íslands, þau Andri M. Kristjánsson, Barbora Davidkova og Ermenegilda Müller, haft aðstöðu á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og unnið við Wikisögu verkefnið sem styrkt er af Rannís í samstarfi við Árnastofnun. Vinna þeirra hefur skilað því að heimildaskráin um Egils sögu Skallagrímssonar er nú svo gott sem fullbúin.
Á heimasíðu Wikisögu má finna heildartexta bæði Eglu og Njálu á íslensku og ensku auk fjölda greina sem koma úr ólíkum áttum og frá ólíkum málsvæðum. Hver grein hefur sína síðu og á henni má finna allar upplýsingar um útgáfuna og í sumum tilvikum tengil á stafrænt eintak. Einnig er að finna ágrip af innihaldi greinarinnar á íslensku og ensku. Að auki er þar að finna tilvitnanir í greinina sem eru tengdar við viðeigandi kafla Njáls sögu eða Egils sögu. Þetta gerir það að verkum að notandi síðunnar getur séð hvaða kaflar eru til umfjöllunnar í hverri grein. Jafnframt er mögulegt að fletta upp á ákveðnum köflum í sögunum og sjá hvaða greinar fjalla um tiltekna kafla.
Heimasíða Wikisögu getur nýst sem mikilvægt verkfæri, bæði fyrir kennara, nemendur og aðra sem lesa og rannsaka Eglu eða Njálu. Verkefninu er ætlað að auka áhuga bæði almennings og fræðimanna á Íslendingasögunum og auðvelda bæði Íslendingum og fólki víðs vegar um heiminn að fræðast um þær. Framtíðarsýn verkefnisins er að gera heimasíðu Wikisögu að miðlægri leitarmiðstöð fyrir alla þá sem vilja kynna sér Íslendingasögurnar nánar.
Ermenegilda Müller, sem kemur frá Sviss, segist hafa lært mikið um íslenska bókmenntasögu og viðtökur sagnanna í gegnum árin af vinnu sinni við Wikisögu auk þess að öðlast haldbæra reynslu í vefsíðugerð. Hún segir það hafa verið spennandi og gefandi að komast í kynni við það fjölbreytta efni sem skrifað hefur verið um Njáls sögu og Egils sögu.