Skip to main content

Flettibók: Skarðsbók

Uppruni og ferill

Skarðsbók postulasagna er talin vera hluti handritahóps sem fræðimenn hafa tengt klaustrinu á Helgafelli. Líklegt er að handritið hafi verið gert að beiðni Orms Snorrasonar, höfðingja á Skarði á Skarðsströnd. Samkvæmt máldaga kirkjunnar á Skarði frá um 1401 (sem er varðveittur á bl. 94vb–95ra í handritinu sjálfu) og Vilkinsmáldaga gaf Ormur Snorrason kirkjunni bókina og hefur hún verið hálf eign kirkjunnar og hálf eign bóndans á Skarði.

Ferill bókarinnar er svo óviss allt þar til snemma á 19. öld þegar hún komst í hendur bóksala í Lundúnum sem seldi hana árið 1836 til enska bókasafnarans Sir Thomas Phillipps. Handritið var í eigu Phillips og erfingja hans fram á miðja 20. öld. Í nóvember árið 1965 var Skarðsbók boðin upp hjá Sotheby & Co. og bundust þá íslensku bankarnir samtökum um að kaupa hana og færa íslensku þjóðinni að gjöf. Hún kom aftur heim til Íslands í október 1966.

 

Útlit og skreytingar

Handritið er veglegt að allri gerð. Textinn er í tveimur dálkum og skrifaður með fallegri rithönd. Margir upphafsstafir eru skreyttir og prýða mannsandlit marga þeirra. Handritið hefur þó orðið fyrir ýmsu hnjaski á langri ævi.

Upprunalegt band bókarinnar hefur einhvern tíma eyðilagst og blöðin losnað sundur. Einnig hefur verið skorið eða klippt af jöðrum margra blaðanna, áreiðanlega vegna þess að þau hafa trosnað.

 

Efni bókarinnar

Skarðbók postulasagna er svokölluð eftir textunum sem hún geymir. Alls inniheldur handritið ellefu þýddar latínusögur af postulum: Péturs sögu, Páls sögu, Andrés sögu, Tveggja postula sögu Jóns og Jakobs, Tómasar sögu, Filippus sögu, Jakobs sögu, Bartholomeus sögu, Matthías sögu, Tveggja postula sögu Símonar og Júdasar, og  Mattheus sögu.

Þýðingarnar eru misgamlar; þær elstu voru gerðar á 12. öld en hinar yngstu ekki fyrr en um 1300. Fyrsta síða handritsins, auk síðasta blaðsins, var upphaflega auð en síðar voru skrifaðir þar tveir máldagar kirkjunnar á Skarði og tíundargerð.