Handritið var skrifað að líkindum í klaustrinu á Helgafelli á Snæfellsnesi og að beiðni Orms Snorrasonar höfðingja á Skarði á Skarðsströnd sem gaf handritið kirkjunni á Skarði. Þar var bókin næstu aldir, allt þar til snemma á 19. öld þegar hún var flutt úr landi og komst eftir einhverjum leiðum í hendur bóksala í Lundúnum sem seldi hana árið 1836 enska bókasafnaranum Sir Thomas Phillipps.
Handritið var í eigu Phillips og erfingja hans fram á miðja 20. öld. Í nóvember árið 1965 var Skarðsbók boðin upp hjá Sotheby & Co. og bundust þá íslensku bankarnir samtökum um að kaupa hana og færa íslensku þjóðinni að gjöf. Hún kom aftur heim til Íslands í október 1966.