Skarðsbók postulasagna er talin vera hluti handritahóps sem fræðimenn hafa tengt klaustrinu á Helgafelli. Líklegt er að handritið hafi verið gert að beiðni Orms Snorrasonar, höfðingja á Skarði á Skarðsströnd. Samkvæmt máldaga kirkjunnar á Skarði frá um 1401 (sem er varðveittur á bl. 94vb–95ra í handritinu sjálfu) og Vilkinsmáldaga gaf Ormur Snorrason kirkjunni bókina og hefur hún verið hálf eign kirkjunnar og hálf eign bóndans á Skarði.
Ferill bókarinnar er svo óviss allt þar til snemma á 19. öld þegar hún komst í hendur bóksala í Lundúnum sem seldi hana árið 1836 til enska bókasafnarans Sir Thomas Phillipps. Handritið var í eigu Phillips og erfingja hans fram á miðja 20. öld. Í nóvember árið 1965 var Skarðsbók boðin upp hjá Sotheby & Co. og bundust þá íslensku bankarnir samtökum um að kaupa hana og færa íslensku þjóðinni að gjöf. Hún kom aftur heim til Íslands í október 1966.