Skip to main content

Flettibók: Skarðsbók

Uppruni og ferðalag

Handritið var skrifað að líkindum í klaustrinu á Helgafelli á Snæfellsnesi og að beiðni Orms Snorrasonar höfðingja á Skarði á Skarðsströnd sem gaf handritið kirkjunni á Skarði. Þar var bókin næstu aldir, allt þar til snemma á 19. öld þegar hún var flutt úr landi og komst eftir einhverjum leiðum í hendur bóksala í Lundúnum sem seldi hana árið 1836 enska bókasafnaranum Sir Thomas Phillipps. 

Handritið var í eigu Phillips og erfingja hans fram á miðja 20. öld. Í nóvember árið 1965 var Skarðsbók boðin upp hjá Sotheby & Co. og bundust þá íslensku bankarnir samtökum um að kaupa hana og færa íslensku þjóðinni að gjöf. Hún kom aftur heim til Íslands í október 1966.

 

Útlit og skreytingar

Handritið er veglegt að allri gerð; bókfellið er óvenjulega vandað, textinn er skrifaður í tveimur dálkum með stóru letri og upphafsstafir eru glæsilega skreyttir. Það hefur þó orðið fyrir ýmsu hnjaski á langri ævi.
 

Upprunalegt band bókarinnar hefur einhvern tíma eyðilagst og blöðin losnað sundur. Einnig hefur verið skorið eða klippt af jöðrum margra blaðanna, áreiðanlega vegna þess að þau hafa trosnað.

Efni bókarinnar

Á Skarðsbók eru ellefu sögur af postulum Krists sem allar eru þýddar úr latínu: Péturs saga, Páls saga, Andreas saga, Tveggja postula saga Jóns og Jakobs, Tómas saga, Filippus saga, Jakobs saga, Bartholomeus saga, Matthías saga, Tveggja postula saga Símons og Júdas, og  Mattheus saga.

Þýðingarnar eru misgamlar; þær elstu voru gerðar á 12. öld en hinar yngstu ekki fyrr en um 1300. Handritið er að mestu skrifað af einum skrifara, en önnur hönd tekur við á blaði 82. Þriðji maðurinn hefur svo skrifað rauðar fyrirsagnir og gert hina fögru upphafsstafi. Fyrsta síða handritsins og síðasta blaðið voru upphaflega auð en síðar voru skrifaðir þar tveir máldagar kirkjunnar á Skarði og tíundargerð.