Öldum saman var Jónsbók grunnurinn að íslenskum lögum. Þótt Ísland væri hluti af norska ríkinu – og síðar því danska – hafði landið sín eigin lög á íslensku. Líklegt er að Jónsbók hafi þannig átt allmikinn þátt í að varðveita íslenska tungu. Enn eru nokkur ákvæði hennar í gildi og stundum kemur það fyrir að dæmt er eftir þeim.
Jónsbók er varðveitt í fleiri en tvö hundruð handritum. Hún var fyrst prentuð árið 1578 á Hólum en þrátt fyrir það var haldið áfram að skrifa hana upp fram á 17. öld. Margir Íslendingar á fyrri öldum lærðu að lesa af Jónsbókarhandritum enda voru fáar bækur til á jafnmörgum heimilum.