Skip to main content

Flettibók: Möðruvallabók

Íslendingasögur

Íslendingasögur nefnast þær sögur einu nafni sem fjalla um landnámsmenn og fyrstu afkomendur þeirra á Íslandi. Þær gerast í heiðnum sið og í öndverðri kristni í landinu. Talið er að þessar sögur muni flestar vera samdar á 13. öld en leifar af handritum þeirra, sem gerlegt þykir að tímasetja fyrir 1300, eru fjarska litlar.

Íslendingasögur hafa nær eingöngu varðveist í uppskriftum sem gerðar voru á 14. öld og síðar. Eins og við er að búast veldur þetta heldur en ekki óvissu í fræðum þeirra sem fást við sögurannsóknir því að ekki er hlaupið að því að greina upphaflegan texta söguhöfundar frá því sem eftirritarar kunna að hafa lagt til málanna. Þó er það betra en ekki ef sagan er til í sæmilega gömlu handriti og helst fleiri en einu svo að komið verði við samanburði á textum.

 

Sögurnar í landinu

Íslendingasögur nefnast þær sögur einu nafni sem fjalla um landnámsmenn og fyrstu afkomendur þeirra á Íslandi. Flestar Íslendingasögur munu vera samdar á 13. öld en engin þeirra hefur varðveist í frumriti. Af þeim handritum sem skrifuð voru fyrir 1300 eru nú aðeins varðveitt fáein brot. Íslendingasögur hafa nær eingöngu varðveist í uppskriftum frá 14. öld og síðar. Niðurröðun efnis í Möðruvallabók er ekki alveg handahófskennd því að sjö fremstu sögunum er skipað niður eftir héruðum og þannig farið réttsælis um landið eftir því sem líður á bókina. Röð þessara sagna er eftirfarandi: Njáls saga (Suðurland), Egils saga (Borgarfjörður), Finnboga saga, Bandamanna saga, Kormáks saga (Norðvesturland), Víga-Glúms saga (Eyjafjörður) og Droplaugarsona saga (Austurland). Síðustu fjórar sögurnar passa ekki inn í landshlutaröðina en þær eru: Ölkofra þáttur (Bláskógabyggð), Hallfreðar saga (Austur-Húnavatnssýsla), Laxdæla saga (Dalir) og Fóstbræðra saga (Vesturland og Vestfirðir). Vera má að skrifari Möðruvallabókar hafi ekki haft eintök af síðustu fjórum sögunum við hendina fyrr en eftir að hann var búinn að skrifa upp hinar sjö fyrstu.

 

Aldur

Upphaflegur hluti Möðruvallabókar er allur með einni hendi að því fráskildu að sumar vísurnar í Egils sögu eru með annarri hendi samtíða. Flestir fræðimenn eru sammála um að Möðruvallabók sé skrifuð á 14. öld en skiptar skoðanir hafa verið um nánari aldursgreiningu. Kristian Kålund tímasetti handritið á fyrri helmingi 14. aldar og tók Einar Ólafur Sveinsson undir þá skoðun í útgáfu sinni á handritinu árið 1933. Rökin fyrir þessari tímasetningu byggðust einkum á skrift og stafagerð handritsins en Jón Helgason prófessor renndir frekari stoðum undir kenninguna með því að varpa útfjólubláu ljósi á ógreinilega athugasemd sem skrifuð var aftan við Njáls sögu en þar stendur: „Láttu rita hér við Gauks sögu Trandilssonar. Mér er sagt að [herra] Grímur eigi hana.“ Jón taldi víst að hér væri átt við Grím Þorsteinsson hirðstjóra sem dó árið 1351. Gauks saga sú sem þarna er talað um var hins vegar aldrei skrifuð inn í Möðruvallabók og er nú með öllu glötuð. Stefán Karlsson endurskoðaði aldursgreiningu Möðruvallabókar lítillega með hliðsjón af öðrum handritum með áþekkri stafagerð og taldi hana skrifaða á árabilinu 1330–1370.

 

Heiti

Um feril Möðruvallabókar fyrstu aldirnar er ekkert vitað með vissu en á einni síðunni er að finna eigendamerkingu frá árinu 1628 þar sem Magnús Björnsson, lögmaður á Munkaþverá, ritar nafn sitt í bókina „í stóru baðstofunni í Möðruvöllum“. Eftir þessari klausu fékk Möðruvallabók heiti sitt seint á 19. öld en ekki er öruggt hvort hér er átt við Möðruvelli í Eyjafirði eða Möðruvelli í Hörgárdal. Fyrrnefndi staðurinn hefur lengst af þótt líklegri en árið 1994 færði Sigurjón Páll Ísaksson rök fyrir því að Magnús lögmaður hafi keypt bókina á Möðruvöllum í Hörgárdal og ritað nafn sitt í hana af því tilefni. Meðal ábúenda á þeim stað árið 1628 var Halldór Ólafsson lögmaður sem var einmitt dæmdur frá sýslu umrætt ár vegna skulda. Halldór neyddist til að selja ýmsar eignir til að létta á skuldunum og kann að vera að hin volduga skinnbók hafi verið þar á meðal.