Íslendingasögur nefnast þær sögur einu nafni sem fjalla um landnámsmenn og fyrstu afkomendur þeirra á Íslandi. Þær gerast í heiðnum sið og í öndverðri kristni í landinu. Talið er að þessar sögur muni flestar vera samdar á 13. öld, en leifar af handritum þeirra, sem gerlegt þykir að tímasetja fyrir 1300, eru fjarska litlar.
Íslendingasögur hafa nær eingöngu varðveist í uppskriftum sem gerðar voru á 14. öld og síðar. Eins og við er að búast veldur þetta heldur en ekki óvissu í fræðum þeirra sem fást við sögurannsóknir, því að ekki er hlaupið að því að greina upphaflegan texta söguhöfundar frá því sem eftirritarar kunna að hafa lagt til málanna. Þó er það betra en ekki ef sagan er til í sæmilega gömlu handriti og helst fleiri en einu, svo að komið verði við samanburði á textum.