Skip to main content

Flettibók: Melsteðs Edda

Skrifarinn

Jakob Sigurðsson stundaði búskap með konu sinni, Ingveldi Sigurðardóttur, fyrst í Jórvík í Breiðdal en síðar fóru þau milli kota í Vopnafirði uns Jakob lést á Breiðumýri í Selárdal árið 1779, rétt liðlega fimmtugur, faðir að minnsta kosti sjö barna. Jakob var listaskrifari og góður teiknari enda er Melsteðs-Edda fallega skrifuð og uppsett. Þrátt fyrir fátækt og ómegð var Jakob furðu afkastamikill skrifari. Á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni eru varðveitt ein fjórtán handrit með hans hendi, hið mesta þeirra upp á 339 blöð með fimmtán riddara-, ævintýra- og fornaldarsögum. Einnig er varðveitt myndskreytt sálmahandrit með hendi hans sem hefur safnmarkið SÁM 3.

 

Efni

Handritið skiptist í sjö misstóra hluta og hefur fjórar efnistengdar titilsíður. Á blöðum 73r–80v eru sextán frásagnarmyndir tengdar efni handritsins. Þar má t.d. sjá geitina Heiðrúnu standa uppi á Valhöll, svo og Óðin, Loka og Hæni að matreiða uxa. Skýringarmyndir og töflur eru í seinni hluta handritsins og tengjast þær umfjöllun um stafróf og rúnir, tímatalsfræði, læknisfræði og reikningslist.

 

Ferð og flug

SÁM 66 ber þess merki að hafa gengið manna á milli. Fyrri eigendur hafa skrifað nöfn sín á handritið og þannig má rekja feril þess uns það komst í hendur föður ekkjunnar Elínar Sigríðar sem fór með handritið og börnin sín sex frá Halldórsstöðum í Kinn til Kanada árið 1876. Það er til marks um hlutverk bókarinnar í íslenskri alþýðumenningu á 19. öld að óskólagengin kona með sex börn skuli hafa lagt það á sig að ferðast með handritið á vit nýrra heimkynna í Vesturheimi. Elín Sigríður nam land rétt hjá Gimli. Bæ sinn nefndi hún Melstað og er Melsted ættarnafn afkomenda hennar. 

Af því dregur handritið nafn sitt og er kallað Melsteðs-Edda. Fjölskylda Arnar Arnar, ræðismanns Íslands í Minnesota í Bandaríkjunum, keypti handritið af Kenneth Melsted og gaf það til Árnastofnunar við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðu 13. febrúar árið 2000. Það hafði þá verið um hríð til rannsóknar á stofnuninni eftir að Haraldur Bessason, prófessor í Winnipeg, hafði haft milligöngu um að koma því til Íslands á 8. áratug 20. aldar. Þá komu þeir Leo og Kenneth Melsted með handritið og fólu stofnuninni það til varðveislu.