Skip to main content

Ársskýrsla 2023

Aðfaraorð forstöðumanns

Árið 2023 verður lengi í minnum haft. Á síðasta vetrardag var nýtt hús íslenskunnar vígt á Melunum og því gefið nafnið Edda að undangenginni nafnasamkeppni þar sem þúsundir tóku þátt. Edda er hús íslenskunnar, íslenskra bókmennta, íslensku sem öðru máli og handritanna, hús rannsókna, kennslu og miðlunar, en einnig vettvangur sköpunar, ritlistar og allra nýju íslensku orðanna. Það hýsir starfsemi Árnastofnunar og kennslu í íslensku, íslenskum bókmenntum, íslensku sem öðru máli og ritlist við Háskóla Íslands. Edda rís á Melavellinum og við erum þess fullviss að sú gleði og jákvæði andi sem þar ríkti á árum áður smitist inn í starfsemi hússins.

Við höfðum beðið lengi eftir því að Edda risi, allt frá því að samkeppni var haldin um hönnun byggingarinnar árið 2008. En þegar hún var vígð fimmtán árum síðar, var eins og það hefði gerst á réttum tíma. Þegar við opnuðum dyrnar upp á gátt og buðum almenningi í heimsókn á sumardaginn fyrsta, fundum við svo sterkt að við höfðum ekki beðið ein, heldur var fólk um allt samfélag að bíða með okkur og gladdist yfir verklokunum. Byggingin fylltist af fólki, tólf til fjórtán þúsund gestir, og gleðin og ánægjan var næstum áþreifanleg. En einnig þakklæti.

Þakklæti til samfélagsins og stjórnvalda fyrir þann stórhug og metnað að reisa svo glæsilega umgjörð utan um rannsóknir, kennslu, miðlun og nýsköpun í íslenskum fræðum. Þakkir til þeirra fjölmörgu sem unnu svo fallega og vel að byggingu hússins í fimmtán ár sem síðla árs 2023 hlaut Hönnunarverðlaun Ísland. En síðast en ekki síst þakkir til almennings fyrir einstaka velvild til hússins sem endurspeglaðist svo fallega í nafnasamkeppninni og um opnunardagana.

Ég hef kallað húsið aflstöð því að í Eddu virkjum við kraftana sem sem búa í rannsóknum, kennslu, nýsköpun og miðlun á vettvangi íslenskra bókmennta og tungumáls, en ekki aðeins innan veggja Eddu, heldur hér heima og erlendis. Húsið er eins og egg í laginu, og við skynjum að okkur hafi verið falið fjöregg í vissum skilningi. En við verðum einnig að spila djarft og takast á við þær áskoranir sem eru allt í kringum okkur – og vinna saman að lausn þeirra.

Edda snýst nefnilega fyrst og fremst um framtíðina og er gjöf til næstu kynslóða. Hún er yfirlýsing um að tungumálið og bókmenntirnar skipti okkur máli, ekki sem minnisvarði heldur sem lifandi afl í samfélaginu.

Guðrún Nordal