Fjóla K. Guðmundsdóttir og Petra Ísold Bjarnadóttir voru ráðnar í sumar á Árnastofnun til þess að leita skapandi leiða til að miðla gagnagrunnum stofnunarinnar til ungs fólks undir handleiðslu vef- og kynningarstjóra. Markhópurinn voru eldri nemar framhaldsskóla og háskólanemar. Eitt af verkefnum þeirra var að finna leiðir til að vekja áhuga ungs fólks á stofnuninni og gögnum hennar.
Ungt fólk nýtir sér nú nær eingöngu netið til að leita sér upplýsinga og fróðleiks. Því lá beint við að nýta samfélagsmiðla í kynningarskyni. Eftir greiningu á ólíkum samfélagsmiðlum var niðurstaðan sú að nota einkum Facebook og Instagram.
Vefgáttin málið.is og þær síður sem hún vísar á, t.d. Beygingarlýsing íslensks nútímamáls (BÍN) og ÍSLEX, voru nýttar sem efniviður fyrir verkefnið. Kynningarefnið skiptist í grófum dráttum í tvo flokka: annars vegar svokölluð spjöld sem eru að miklu leyti myndskreyttar upplýsingar (e. memes) og hins vegar myndbönd. Einnig var farið af stað með orðaleik sem kallaði á þátttöku almennings.
Gengið var út frá því að miðlunarefnið hefði skemmtanagildi, væri sjónrænt aðlaðandi og fræðandi. Áhorfendatölur voru lesnar reglulega til að kanna hvort samfélagsmiðlarnir hefðu þau áhrif sem stefnt var að. Þrennt stóð upp úr eftir vinnu sumarsins.
Orðalínan
Notkun miðlanna jókst mikið þegar leiknum Orðalínunni var hleypt af stokkunum. Hann fór þannig fram að keppendur bættu við samsettu orði við annað þar sem forliður þess varð að vera sá sami og viðliður orðsins á undan. Þetta var prófað tvisvar og jókst þátttakan jafnt og þétt. Svör komu bæði af Facebook og Instagram og allmikil vinna var við utanumhald með svörum en það var þess virði til að fá fylgjendur til að vera virkari á síðunni.
Myndbönd
Ráðgert hafði einnig verið að gera myndband sem kalla hefði mátt: Skyggnst inn í Árnastofnun. Tíminn hljóp hins vegar frá okkur. Hugmyndin með því var að kynna ungu fólki tilgang og starfsemi Árnastofnunar með léttum hætti en það bíður betri tíma.
Fylgjendasöfnun og viðtökur
Hægt og rólega bættust fylgjendur við yfir sumarið. Það sem virkaði helst á Facebook til að afla okkur fylgjenda var eftirfarandi:
- Vinalistar á Facebook.
- Ábendingum póstað á aðra hópa, t.d. Facebook-hóp þjóðfræðinga.
- Endurdeiling efnis á eigin síður.
- Deiling Orðalínunnar inni á Facebook-hópnum Skemmtileg íslensk orð. Það fór á flug og þegar þetta er skrifað eru rúmlega 2000 athugasemdir komnar við innleggið.
Með þessum aðferðum hefur sýnileiki stofnunarinnar aukist hægt og rólega. Þegar á heildina er litið hefur sumarverkefnið náð ágætlega til fólks á bilinu 18–34 ára sem rímar vel við þá ætlun okkar að miðla efninu til nemenda í framhaldsskólum og háskólum.
Facebook er ekki mikið notað af ungu fólki, sérstaklega hvað varðar skemmtiefni. Það var líka ein helsta ástæða þess að við ákváðum að vera einnig með reikning á Instagram-forritinu. Instagram er öðruvísi en Facebook að því leyti að þar er ekki hægt að senda boð eða ábendingar til vina. Helstu kynningarleiðirnar eru annars vegar að fylgja öðrum aðilum og vonast til þess að þeir fylgi manni til baka og að notast við aragrúa af myllumerkjum (#) til þess að birtast sem oftast í leitarniðurstöðum. Við kusum að halda okkur við seinni leiðina þar sem við vildum ekki sérstaklega tengja okkur við handahófskennda aðila. Við ákváðum að notast við blöndu af myllumerkjum á íslensku og ensku þar sem við vildum einnig ná til þeirra sem hafa ekki íslensku að móðurmáli. Við höfum í framhaldi af því séð að við höfum fengið nokkuð af fylgjendum utan úr heimi sem hafa áhuga á íslensku máli.
Verkefnið hefur aukið sýnileika stofnunarinnar hérlendis sem erlendis og var því ákveðið að halda áfram með orðaleikinn og birtingu myndskreyttra spjalda fram eftir vetri.
Hægt er að sjá afrakstur sumarsins á Facebook-síðunni https://www.facebook.com/arni1663 og Instagramsíðunni https://www.instagram.com/arni1663/.