Skip to main content

Leiðsögn og fræðsla fyrir skólahópa (ekki í boði á vormisseri 2021)

Blekgerðarefni og litaduft

Leiðsögn og fræðsla fyrir skólahópa í Safnahúsinu

Á handritahluta sýningarinnar Sjónarhorn í Safnahúsinu eru sjö valin handrit úr safni Árna Magnússonar (1663–1730) handritasafnara og prófessors við Kaupmannahafnarháskóla. Öll eiga handritin það sameiginlegt að geyma lögbókartexta Jónsbókar ritaðan á íslensku en auk þeirra má sjá handrit frá Landsbókasafni Íslands og Þjóðskjalasafni Íslands. Handrit í vörslu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum bárust úr tveimur söfnum í Kaupmannahöfn, Árnasafni og Konunglega bókasafninu, og voru afhent íslensku þjóðinni til varðveislu á árunum 1971–1997; um 2000 handrit og handritabrot á skinni eða hörpappír.

Safnkennari Árnastofnunar tekur á móti skólahópum í Safnahúsinu þar sem boðið er upp á kynningu og fræðslu fyrir nemendur mið- og efsta stigs grunnskóla auk menntaskóla. Í grunninn miðast kennslan við námskrá og er áhersla lögð á að tengja fræðsluna námsefni hverrar bekkjardeildar. Heimsókn fyrir nemendur á háskólastigi er sniðin að þörfum hvers og eins hóps.

Í máli og myndum eru nemendur fræddir um munnlega geymd sagna- og kvæðaarfsins, um ritun og gerð íslenskra miðaldahandrita og varðveislu þeirra fram á okkar daga. Fjallað er um bókmenntir, sögu og menningarlíf þjóðarinnar, bókagerðina sjálfa, þ.e. handverkið við gerð miðaldahandrita; verkun kálfskinns í bókfell, blekgerð og liti, myndlýsingar o.fl. auk skurðar á fjöðurstaf eins og hann tíðkaðist fyrr á öldum. Stækkaðar litljósmyndir sýna ólíkar leturgerðir og þróun skriftarinnar í miðalda- og síðari tíma handritum og sérstaka rittækni skrifaranna, þ.e. skammstafanir, styttingar og bönd sem þeir beittu óspart við ritstörf sín. Nemendur fá tækifæri til að spreyta sig við lestur fornra texta en með því sjá þeir hversu lítið íslensk tunga hefur í raun breyst í aldanna rás.

Undir lok heimsóknarinnar býðst nemendum að að spteyta sig á að skrifa með tilskornum fjöðurstaf á sérverkað bókfell (kálfskinn), sem verkað er með ævafornri aðferð, og bleki löguðu af sortulyngsseyði, sortu, krækiberjum og grávíðileggjum.

Tekið er endurgjaldslaust á móti hópum eftir samkomulagi þriðjudaga til föstudaga. Húsrúm er fyrir einn bekk í einu, þ.e. um 25 eða samsvarandi fjölda nemenda og tekur heimsóknin um eina klukkustund. Nánari upplýsingar um leiðsögnina og bókanir veitir Svanhildur María Gunnarsdóttir, safnkennari við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: svanhildur.maria.gunnarsdottir [hjá] arnastofnun.is.

Safnkennsla í Safnahúsi