Skip to main content

Fréttir

Safnvörður óskast hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum auglýsir eftir safnverði. Stofnunin er háskólastofnun með sjálfstæðan fjárhag og heyrir undir menningar- og viðskiptaráðherra. Hlutverk hennar er að vinna að rannsóknum í íslenskum fræðum og skyldum fræðigreinum, miðla þekkingu á þeim fræðum og varðveita og efla þau söfn sem stofnuninni eru falin eða hún á. Stofnunin varðveitir gögn af ýmsu tagi, svo sem handrit, kort, hljóðspólur, orðabókarseðla og ljósmyndir af handritum. Safnvörður vinnur í nánu samstarfi við forvörð stofnunarinnar en einnig fræðimenn og handritaljósmyndara hennar.

Helstu verkefni og ábyrgð

  • Fylgjast ásamt forverði með ástandi safnkostsins og gera ráðstafanir til úrbóta ef þörf krefur.

  • Sækja gögn í geymslur samkvæmt nánari leiðbeiningum og afhenda á lestrarsal.

  • Sitja yfir á lestrarsal ef einhver vinnur þar með frumgögn.

  • Skrá handrit stofnunarinnar á vefinn handrit.is undir leiðsögn handritafræðinga.

Hæfniskröfur

  • MA-próf eða sambærileg menntun frá viðurkenndri menntastofnun á fræðasviði stofnunarinnar.

  • Góð íslenskukunnátta. Kunnátta í dönsku, latínu og ensku er æskileg.

  • Góð kunnátta í sögu íslenskra bókmennta og sögu Íslands.

  • Vandvirkni í frágangi.

  • Hæfni í mannlegum samskiptum.

  • Góð skipulagshæfni, sjálfstæði og öguð vinnubrögð.

  • Frumkvæði og metnaður til að ná árangri í starfi. Æskilegt er að umsækjendur hafi áhuga á safnstarfi og safnkosti Árnastofnunar.

  • Æskilegt er að umsækjandi hafi reynslu af skráningarstörfum.

Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og Félag háskólakennara hafa gert. Um er að ræða fullt starf frá 1. október 2024.

Með umsókn skal fylgja starfsferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og hvernig viðkomandi uppfyllir þær hæfniskröfur sem gerðar eru. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.

Starfshlutfall er 100%

Umsóknarfrestur er til og með 8. júlí 2024

Nánari upplýsingar veitir Guðvarður Már Gunnlaugsson, gudvardur.mar.gunnlaugsson@arnastofnun.is. Sími: 5254024.