Skip to main content

Pistlar

Eina brownies, takk!

Horft ofan á ferkantaða brúnkubita (brownies). Inn á milli þeirra eru þrír gulir fíflar.
Brúnkur (brownies)
Honey Yanibel Minaya Cruz / Unsplash

Framandorð eru þau aðkomuorð í íslensku stundum kölluð sem hafa ekki aðlagast íslensku málkerfi að fullu (Ásta Svavarsdóttir 2011:341). Einnig skipta hér t.d. viðhorf samfélagsins máli (sbr. Helgu Hilmisdóttur 2021). Brownies í (1) er dæmi um framandorð. Það er fengið úr ensku og er kökutegund.[1]

(1) a. Ég er að baka brownies.

      b. Á dögunum prófaði ég nýja útfærslu af brownies [...]

Við fyrstu sýn gæti orðið virst hafa aðlagast íslensku beygingarkerfi lítt eða ekki; orðið fær ekki íslenska fleirtöluendingu (sem hefði t.d. getað verið -ar eða -ur í þolfallsdæminu í (1a) og -um í þágufallsdæminu í (1b)) heldur hefur það enskt fleirtölu-s.[2] Framandorð eiga það hins vegar til að leyna talsvert á sér. Dæmi um það er brownies í (2).[3]

(2) a. Það er fátt sem bragðast betur en gott kaffi eða ísköld mjólk og nýbakaðar brownies.

       b. Þessar brownies eru stökkar.

Nafnorð stýra kynjasamræmi á ákvæðisorðum, svo sem lýsingarorðum, og það gerir brownies í (2). Fyrir fram gætum við kannski búist við því að kynjasamræmið með framandorðum væri alltaf eins (sjá umræðu um kyn framandorða hjá Guðrúnu Kvaran og Ástu Svavarsdóttur 2002:94–96), og þá e.t.v. hvorugkyn þar sem það er minnst markað í íslensku (sjá umræðu um mörkun m.t.t. kynja hjá Eiríki Rögnvaldssyni 1990:62–63). Svo er hins vegar ekki í (2) – þar stýrir brownies kvenkyni (þó virðist kvenkyn markaðast íslenskra kynja; Eiríkur Rögnvaldsson 1990:62–63).

Eins og fram hefur komið er brownies fleirtala í ensku; eintalan er brownie. Þegar talað er um eina slíka köku á íslensku, eins og í (3), helst s-ið gjarnan.[4]

(3)     og það var rosalega þurr og ísköld brownies (sem hefði eflaust verið mun skárri ef hún hefði verið allavega volg)

Alveg eins og í (2) eru ákvæðisorðin með brownies í kvenkyni í (3) (og þar að auki er fornafnið hún notað til að vísa til kökunnar). Spyrja má hvernig standi á notkun kvenkynsins. Einn möguleiki er að gera ráð fyrir ósögðu nafnorði í setningunni, eins og kaka, og því væri í raun verið að tala um brownies-köku – rétt eins og við gerum stundum ráð fyrir að orðið bolli sé ósagt þegar við biðjum um einn kaffi en ekki eitt kaffi (Wiese og Maling 2005; Whelpton o.fl. 2014; Einar Freyr Sigurðsson o.fl. 2022).

Það er fleira sem má velta fyrir sér meðal framandorða. Getur brownies t.a.m. bætt við sig greini – og hvernig lítur orðið þá út? Í Risamálheildinni fann ég dæmi um browniesarnar í (4) – hér væri mun síður hægt að halda því fram að orðið kaka væri ósagt.

(4)     Svo spurði hún hvort ég vildi hafa jarðarberin á sama disk og browniesarnar eða aðskilið.

Þetta er athyglisvert. Kvenkyns nafnorð með greini sem enda á -arnar enda venjulega án greinis á -ar: spurningar spurningarnar; hlíðar hlíðarnar; skálar skálarnar. Það á hins vegar ekki við um brownies. Þrátt fyrir að orðið án greinis sé að því er virðist alltaf eins í öllum föllum og báðum tölum lítur út fyrir að það lagi sig býsna vel að íslensku málkerfi þegar viðskeytti greinirinn er notaður því að til viðbótar við -nar fær orðið fleirtöluendinguna -ar.[5]

Fótleggir í miðju hoppi yfir grasfleti. Íklæddir leggings með bera fætur. Í bakgrunni er múrsteinsveggur, úr fókus.
Leggings
Alexander Grey / Unsplash

Orðið brownies er ekki eitt um að hegða sér svona. Leggings stýrir venjulega kvenkyns- og fleirtölusamræmi og er eins í öllum föllum án greinis (sbr. uppflettiorðið leggings í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls og Íslenskri nútímamálsorðabók).

(5) a. Allir vita að leggings eru þægilegar og smart [...]

      b. Ég mun setja hárið í tagl, smella mér í stuttar leggings og víðan bol með angóru.

      c. Ég sauma kjóla, peysur, buxur og leggings og ætla einnig að gera barnaleggings og kjóla.

      d. Ég er mjög oft í svörtum leggings og þægilegum bol heima við [...]

Þegar setningafræðilegt umhverfi kallar á greini bætist ekki eingöngu við orðið ákveðinn greinir heldur einnig fleirtöluendingin -ar. Leit að leggingsarnar eða legginsarnar skilar ellefu niðurstöðum en engin dæmi eru um leggingsar eða legginsar.[6]

(6)     Ef að leggingsarnar eru þykkar og manneskjan með flotta fótleggi finnst mér þetta bara hipp og kúl.

Browniesarnar og leggingsarnar minna svolítið á hið rótgróna orð maður sem í nf.ft. er endingarlaust, menn, en bætir við sig fleirtölunni -ir þegar greini er skeytt aftan við það, menn-ir-nir (sbr. Eirík Rögnvaldsson 1990).

Hér fyrir ofan hef ég fjallað um framandorð eins og þau birtast í dæmum í Risamálheildinni. Hægt er að skoða þetta efni mun betur og spennandi væri t.d. að kanna tilbrigði í notkun brownies, leggings og fleiri aðkomuorða í málinu.

 

[1] Öll tölusett dæmi í þessum pistli eru fengin úr Risamálheildinni: malheildir.arnastofnun.is.

[2] Sjá stutta umræðu um fleirtölu-s í nokkrum framandorðum hjá Ástu Svavarsdóttur (2008:32).

[3] Ég þakka Finni Ágústi Ingimundarsyni fyrir að vekja athygli mína á notkuninni á brownies sem er sýnd í (2). Dæmin sem hann sendi mér urðu kveikjan að þessum pistli.

[4] Fleirtölu-s helst í ýmsum framandorðum þegar vísað er í einn hlut. Það er t.d. hægt að biðja um eina muffins en síður eina muffin. Einnig hefur komið fram í barnamálsathugunum að börn segja stundum einn minions (Sigríður Sigurjónsdóttir og Iris Nowenstein 2024) þegar þau tala um einn skósvein úr kvikmyndum eins og Aulinn ég. Sjá einnig Guðrúnu Kvaran og Ástu Svavarsdóttur (2002:93).

[5] Ég hef engin dæmi fundið um fleirtöluendingu á brownies án greinis – t.d. ekki nf.ft./þf.ft. browniesar, browniesir eða browniesur eða þgf.ft. browniesum – en hef eins og hér hefur komið fram fundið browniesarnar og einnig browniesirnar og victory brownies-unum.

[6] Ég þakka Hlíf Árnadóttur fyrir að benda mér á leggingsarnar. Hún segist sjálf hafa notað orðmyndina leggingsarnar en það sé eitthvað skrítið við það. Þess má geta að einnig finnast dæmi um leggingsirnar og leggingsurnar í Risamálheildinni.

Birt þann 7. maí 2024
Síðast breytt 9. maí 2024
Heimildir

Ásta Svavarsdóttir. 2008. “Staffið er mega kúl.” Om tilpasning af moderne importord i islandsk skriftsprog. Helge Omdal og Helge Sandøy (ritstj.): Nasjonal eller internasjonal skrivemåte? Om importord i seks nordiske språksamfunn, bls. 21–48. Moderne importord i språka i Norden VIII. Osló: Novus.

Ásta Svavarsdóttir. 2011. Orð af erlendum uppruna. Jóhannes B. Sigtryggsson (ritstj.): Handbók um íslensku. Hagnýtur leiðarvísir um íslenskt mál, málnotkun, stafsetningu og ritun, bls. 340–348. Reykjavík: JPV útgáfa.

Beygingarlýsing íslensks nútímamáls. Kristín Bjarnadóttir og Kristín Ingibjörg Hlynsdóttir (ritstj.). Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. (Maí 2024).

Einar Freyr Sigurðsson, Finnur Ágúst Ingimundarson og Matthew Whelpton. 2022. Samræmi við hulin nafnorð. Orð og tunga 24:21–56.

Eiríkur Rögnvaldsson. 1990. Íslensk orðhlutafræði. Kennslukver handa nemendum á háskólastigi. 4. útgáfa. Reykjavík: Málvísindastofnun Háskóla Íslands.

Guðrún Kvaran og Ásta Svavarsdóttir. 2002. Icelandic. Manfred Görlach (ritstj.): English in Europe, bls. 82–107. Oxford: Oxford University Press.

Helga Hilmisdóttir. 2021. Leikjatölvur og orðaforði unglinga. Rannsókn á framandorðum í samtölum tveggja grunnskóladrengja. Ritið 3/2021:117–144.

Íslensk nútímamálsorðabók. Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir (ritstj.). Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. (Maí 2024).

Risamálheildin. Starkaður Barkarson, Steinþór Steingrímsson o.fl. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. 2022-útgáfan.

Sigríður Sigurjónsdóttir og Iris Nowenstein. 2024. Tímarnir breytast og maðarnir með. Fyrirlestur á Hugvísindaþingi, 8. mars. Reykjavík: Háskóli Íslands.

Whelpton, Matthew, Drew Trotter, Þórhalla Guðmundsdóttir Beck, Curt Anderson, Joan Maling, Karthik Durvasula og Alan Beretta. 2014. Portions and sorts in Icelandic: An ERP study. Brain & Language 136:44–57.

Wiese, Heike og Joan Maling. 2005. Beers, kaffi, and Schnaps: Different Grammatical Options for Restaurant Talk Coercions in Three Germanic Languages. Journal of Germanic Linguistics 17:1–38.