Skip to main content

Pistlar

Akbraut

Birtist upphaflega í september 2006.

Akbraut er nafn á bæ í Holtahreppi, nú Rangárþingi ytra í Rangárvallasýslu. Í Oddamáldaga 1270 er nafnið „j akbravtar holti“ (DI II:87) en Akrabraut er hún nefnd í jarðabók 1759. Orðið akbraut getur merkt 'mjó slétta' (Magnús Blöndal Jónsson II:277) (OH). Það er til í lýsingu á landamerkjum frá 1719: „Rædur þa akbraut vtan til motz vid Mosa grund“ (Biskupsskjalasafn BIII 13, 80r í handriti (Orðabók Háskólans Ritmálssafn)). Einnig er nefnd akbraut í Blönduhlíð í fornbréfasafninu (DI III:564, V:323). Björn Þorsteinsson taldi að nafnið á holtinu væri eldra en byggðin á jörðinni. Menn hafi verið búnir að ferðast nokkuð lengi um holtið áður en bærinn var reistur en það geti samt verið allforn bær (bls. 13). 

Bærinn var fluttur að Þjórsá 1823 (Sigurður Sigurðsson, bls. 185) í landnorður frá upprunalega bæjarstæðinu vegna uppblásturs. Þar sem hann stóð áður, er nefnt Gamla-Akbraut. Þar sér enn fyrir bæjarstæði og kirkjugarði. Bærinn hefur staðið sunnan undir hól, sem nefnist Kirkjuhóll. Uppblástur hefur komið að norðan frá ánni, og hefur bærinn því verið fluttur fyrst neðar í túnið undan sandáganginum, en síðar þangað, sem hann stendur nú. Heimildarmaður að þessum örnefnum er Daníel Jónsson frá Akbraut. Hann hefur heyrt, að bærinn dragi nafn af því, að braut þeirra Skálholtsbiskupanna hafi legið þar um, er þeir drógu að sér föng sunnan af Landeyjasandi. Amma Daníels, Sigþrúður Daníelsdóttir, sagði honum þetta, en hún var fædd í Akbraut og var á 13. ári, er bærinn var fluttur. Daníel, faðir hennar, flutti bæinn þangað, sem hann er nú (Björn Þorsteinsson, bls. 66). Umtalsverð umferð hefur verið um Akbraut og sagði maður sem var þar að sumarlagi á öðrum fjórðungi 20. aldar frá því, að ekki hafi liðið vika án þess að farið væri vestur yfir ána. (Heimildarmaður Daníel Magnússon bóndi í Akbraut).

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Björn Þorsteinsson: Örnefni í Rangárþingi. Fjölrit.
DI = Diplomatarium Islandicum. Íslenskt fornbréfasafn I-XVI. Kmh. 1857- Rvk. 1972.
Magnús Blöndal Jónsson: Endurminningar II. Prestur og bóndi. Rvk. 1980.
Sigurður Sigurðsson: Efri-Holtaþing. Rangárvallasýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenzka bókmenntafélags 1839–1845, 1856 og 1872–1873. Rvk. 1968.