Skip to main content

Um stofnunina

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er háskólastofnun með sjálfstæðan fjárhag og heyrir undir menningar- og viðskiptaráðherra. Hlutverk hennar er að vinna að rannsóknum í íslenskum fræðum og skyldum fræðigreinum, einkum á sviði íslenskrar tungu og bókmennta, miðla þekkingu á þeim fræðum og varðveita og efla þau söfn sem stofnuninni eru falin eða hún á. Stofnunin hefur frá 1. september 2006 starfað samkvæmt lögum nr. 40 frá 12. júní 2006 um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er Guðrún Nordal.

Skipurit

Skipurit Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tók gildi árið 2006.

Skipurit Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Stjórn

Stjórn stofnunarinnar skipa:

Menningar- og viðskiptaráðherra skipar Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fimm manna stjórn til fjögurra ára í senn. Skulu þrír skipaðir samkvæmt tilnefningu háskólaráðs Háskóla Íslands og tveir án tilnefningar og er annar þeirra formaður stjórnar.

Húsþing

Forstöðumaður kallar húsþing saman og stjórnar því. Á húsþingi stofnunarinnar eiga sæti þeir sem ráðnir eru til rannsóknarstarfa við stofnunina. Þeir hafa atkvæðisrétt vegna ákvarðana og umsagna sem lögin mæla fyrir um. Húsþing skal kalla saman ef þriðjungur þeirra sem ráðnir eru til rannsóknarstarfa óskar.

Húsþing tilnefnir mann í dómnefnd vegna skipunar forstöðumanns og veitir umsögn um tillögu forstöðumanns að reglugerð, sbr. 4. gr. laganna. Húsþing tilnefnir fulltrúa í dómnefnd vegna ráðningar til rannsóknar­starfa, sbr. 9. gr., og veitir forstöðumanni umsögn um slíka ráðningu. Húsþing veitir forstöðumanni rökstudda umsögn um umsækjendur um sérstakar rannsóknar­stöður tengdar nafni Árna Magnússonar og Sigurðar Nordals, sbr. 8. gr.

Forstöðumaður getur boðað aðra starfsmenn til húsþings. Auk þeirra verkefna sem ákveðin eru með lögunum er húsþing vettvangur umræðu og ráðgjafar um innri málefni stofnunarinnar, um fræðilega stefnumótun, verkefni og útgáfumál.

Starfssvið
Skipulag stofnunarinnar markast af forsögu hennar í fimm stofnunum og fer starfsemin fram á átta sviðum sem eru til húsa á þremur stöðum í og við miðborg Reykjavíkur, Árnagarði við Suðurgötu, Laugavegi 13 og Þingholtsstræti 29.

Alþjóðasvið

 alþjóðasviði er lögð áhersla á að kynna íslenska menningu hvarvetna í heiminum. Samstarf er við hugvísindadeild Háskóla Íslands um námskeið í íslensku og íslenskum fræðum og um rannsóknir á íslensku sem öðru og erlendu máli. Þar er umsjón með kennslu í íslensku og þjónustu við háskólakennara í íslensku við erlenda háskóla af hálfu íslenskra stjórnvalda.

Stofnunin á aðild að norrænni samstarfsnefnd um kennslu í Norðurlandafræðum erlendis. Á alþjóðasviði er umsjón með samskiptum við erlenda náms- og fræðimenn. Sviðið annast styrki Snorra Sturlusonar sem eru veittir árlega erlendum rithöfundum, þýðendum og fræðimönnum. Sviðið annast umsýslu með styrkjum menningar- og viðskiptaráðuneytis til erlendra stúdenta til íslenskunáms við Háskóla Íslands.

Verkefnastjóri er Branislav Bédi.

Bókasafn

Stærstur hluti bókasafns stofnunarinnar er í Árnagarði v/Suðurgötu en handbókasöfn eru einnig á Laugavegi 13, þar sem nafnfræði-, málræktar- og orðfræðisvið eru til húsa. Rit eru að jafnaði ekki lánuð út en fólki er eftir föngum veitt aðstaða til lestrar. 

Bókasafns- og upplýsingafræðingur er Guðný Ragnarsdóttir.

Handritasvið

Á handritasviði stofnunarinnar er unnið að ýmiss konar fræðilegum og hagnýtum verkefnum sem snerta varðveislu handritanna, rannsóknir á þeim og útgáfu. Handritasafnið er varðveitt við bestu skilyrði og áhersla lögð á eflingu þess, viðhald og skráningu. Forvörslustofa og ljósmyndastofa eru á handritasviði. Rannsóknir eru stundaðar á textum handritanna oft í samstarfi við aðra sem sinna verkefnum á sviði handritafræða.

Stofustjóri er Guðvarður Már Gunnlaugsson.

Málræktarsvið

Viðfangsefni málræktarsviðs lúta annars vegar að málrækt almennt og hins vegar að sérhæfðum orðaforða. Starfsmenn málræktarsviðs veita almenningi og sérfræðingum málfarsráðgjöf og leiðbeiningar um vandað mál, réttritun, orðmyndun, íðorðastarf og fleira og aðstoða við útgáfu orðaskráa í sérgreinum. Málræktarsvið sinnir einnig lögbundinni þjónustu Árnastofnunar við Íslenska málnefnd. Rannsóknarverkefni sviðsins varða ýmsa þætti tungumálsins, s.s. stöðu þess, stöðlun, auðgun og innra og ytra samhengi.

Stofustjóri er Ari Páll Kristinsson.

Nafnfræðisvið

Á nafnfræðisviði stofnunarinnar er unnið að fræðilegum og hagnýtum verkefnum sem snerta örnefni og nafnfræði. Nafnfræðisvið hefur umsjón með örnefnasafni stofnunarinnar, varðveislu þess og eflingu, viðhaldi, skráningu og kynningu. Það veitir einstaklingum, stofnunum, sveitarfélögum og fyrirtækjum þjónustu sem felst meðal annars í því að miðla upplýsingum og svara fyrirspurnum. Áhersla er lögð á rannsóknir sem tengjast örnefnum og nafnfræði almennt. Sviðið er í samstarfi við aðrar stofnanir, einkum Landmælingar Íslands og Þjóðskrá Íslands, og annast skrifstofuhald fyrir Örnefnanefnd.

Stofustjóri er Emily Lethbridge.

Orðfræðisvið

Á orðfræðisviði stofnunarinnar er unnið að margvíslegum fræðilegum og hagnýtum verkefnum sem snerta íslenskt mál og íslenskan orðaforða. Þar eru söfn Orðabókar Háskólans, sem geyma mikilvægar heimildir um orðaforðann frá siðskiptum til nútímans, varðveitt. Þau eru aðgengileg fyrir fræðimenn, stúdenta og almenning, bæði á vef stofnunarinnar og í seðlasöfnum í húsakynnum sviðsins. Jafnframt er unnið að frekari heimildasöfnun um orð og orðanotkun í rituðu og töluðu máli og að því að þróa nýjar aðferðir við efnisöflun og úrvinnslu. Áhersla er lögð á rannsóknir sem tengjast orðum og orðasamböndum, rannsóknir á orðaforðanum og þróun hans svo og rannsóknir í orðabókafræðum og máltækni.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er í forystu um nýjungar í orðabókagerð og starfmenn orðfræðisviðs búa yfir þekkingu og reynslu á því sviði. Þar er unnið að verkefnum á sviði orðabókagerðar og orðabókafræði, jafnt rannsóknum, þróunarstarfi og ýmsum hagnýtum verkefnum. Orðabók Háskólans varð snemma í forystu um nýtingu tölvutækni við rannsóknir og orðabókagerð og stofnunin heldur áfram þeim verkum sem þar var unnið að. Lögð er stund á hagnýt og fræðileg verkefni á sviði máltækni sem styðja málrannsóknir, orðabókagerð og þróun máltæknibúnaðar og afrakstur þeirra nýtist bæði innan og utan stofnunarinnar.

Stofustjóri er Ásta Svavarsdóttir.

Stjórnsýslusvið

Undir stjórnsýslusvið heyra fjármál, tæknimál, starfsmannamál, bókhald, vef- og kynningarmál, innkaup og sala, eftirlit með eignum stofnunarinnar, umsjón með fræðimannsíbúðum og leiga þeirra.

Stofustjóri er Sigurborg Kristín Stefánsdóttir.

Þjóðfræðisvið

Þjóðfræðisvið annast þjóðfræðisafn stofnunarinnar, en í því er hljóðritað efni sem safnað er úr munnlegri geymd. Starfræktur er gagnagrunnur, á vegum Ísmús, þar sem finna má flokkaða yfirlitsskrá um þjóðfræðiefni ásamt hljóðritum (að hluta). Unnið er að rannsóknum á efni safnsins og ýmsum verkefnum sem því tengjast, einkum söfnun og skráningu.

Útgáfa er snar þáttur í starfsemi sviðsins. Lögð er áhersla á varðveislu, viðhald, flokkun og skráningu safnsins þannig að gott aðgengi sé að því. Gagnagrunnurinn Ísmús, sem veitir aðgang að efninu, er nú opinn öllum og stór hluti safnsins er þegar aðgengilegur.

Stofustjóri er Gísli Sigurðsson.