Skip to main content

Events

Fyrirlestur um nýútkomna bók Úlfars Bragasonar, Reykjaholt revisited

Í tilefni af nýútkominni bók Úlfars Bragasonar, Reykjaholt Revisited: Representing Snorri in Sturla Þórðarson’s Íslendinga saga, verður haldinn fyrirlestur í Auðarsal í Veröld – húsi Vigdísar laugardaginn 15. janúar kl. 14.

Um bókina:

Reykjaholt Revisited. Representing Snorri in Sturla Þórðarson’s Íslendinga saga eftir Úlfar Bragason prófessor emeritus. Útgefandi er Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum en Andrew Wawn þýddi á ensku. Bókin fjallar um mynd þá sem Íslendinga saga Sturlu Þórðarsonar dregur upp af Snorra Sturlusyni, um viðhorf og aðferðir sagnaritarans og textasamfélag hans. Fræðimenn hafa löngum dregið mjög í efa hlutlægni Sturlu enda hefur mynd hans af Snorra ekki hugnast þeim. Í bókinni er lýsingin á Snorra og fjölskyldu hans í Reykholti greind og skýrð út frá frásagnarfræði verksins og ætlun höfundar með verkinu. Greiningin byggir á viðamikilli og frumlegri rannsókn og er unnin útfrá ýmsum fræðikenningum sem mjög eru á oddinum þessa stundina, svo sem minnisrannsóknum (m.a. um minningasambönd, persónulegt og sameiginlegt minni og hvernig staðir tengjast minningum og tilfinningum), frásagnarfræðum og tilfinningafræðum.

Bókin felur í sér mikla nýsköpun þekkingar, áhugaverða bókmenntagreiningu og -túlkun og mun gagnast bæði fræðimönnum og stúdentum við áframhaldandi rannsóknir á sviðinu. Bókin er einnig afar áhugaverð lesning fyrir allan almenning enda um nýstárlegt sjónarhorn á viðfangsefnið að ræða.

Kynnir er Þórunn Sigurðardóttir rannsóknarprófessor.

Streymt verður frá fyrirlestrinum: Frásagnarlist Sturlu Þórðarsonar - Fyrirlestur Úlfars Bragasonar on Livestream.

Athugið takmörkuð sæti (26) og grímuskyldu.

2022-01-15T14:00:00 - 2022-01-15T15:00:00
Add to Calendar
-