Skip to main content

Ritmálssafn

Efniviður

Ritmálssafn Orðabókar Háskólans hefur að geyma dæmi um notkun orða í íslenskum ritheimildum á nærri fimm alda tímabili, frá miðri 16. öld til loka 20. aldar. Dæmin eru flest úr prentuðum bókum eða blöðum en einnig hefur verið safnað dæmum úr handritum. Elsta orðtekna ritið er þýðing Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu frá 1540, fyrsta bókin sem prentuð var á íslensku. Við efnissöfnunina hefur nær allt prentað mál frá upphafi fram á 19. öld verið lesið og orðtekið svo og mikið frá 20. öld.

 
Orðtaka

Orðtaka felst í því að velja og afmarka notkunardæmi um orð þar sem þau koma fyrir í texta. Orðið er skráð ásamt því setningarlega samhengi sem það kemur fram í og dæmið er fært undir viðeigandi flettiorð. Einnig er tilgreind heimild. Loks er dæminu komið fyrir í dæmasafni.

 
Safnið

Ritmálssafnið er að stofni til seðlasafn, þ.e.a.s. dæmin voru upphaflega skráð á seðla sem raðað er í stafrófsröð eftir uppflettiorði þannig að þeir mynda eins konar spjaldskrá. Áætlað er að í safninu séu um 2,5 milljónir notkunardæma um hátt í 700 þúsund orð. Um stóran hluta orðaforðans er einungis eitt dæmi en um einstök algeng orð getur dæmafjöldinn skipt hundruðum, t.d. eru dæmi um hverja sagnanna vera, hafa og gera hátt í tvö þúsund.


Tiltölulega snemma var hafist handa við tölvuskráningu ritmálssafnsins. Fyrsta áfanga verksins lauk 1988 en þá var búið að skrá allan orðaforða safnsins og tilteknar grunnupplýsingar um hvert orð í svokallaðri ritmálsskrá sem enn er kjarni gagnasafnsins. Einnig var gerð rafræn heimildaskrá yfir öll rit sem hafa verið orðtekin við dæmasöfnunina og hún tengd við heimildaskammstafanir í safninu. Einnig var hafist handa við tölvuskráningu sjálfra dæmanna og á árunum 1995–97 var hægt að ráðast í sérstakt átak á því sviði með styrk frá Lýðveldissjóði. Í kjölfarið var búið þannig um gagnasafnið að nú er meginhluti ritmálssafnsins öllum aðgengilegur á vefsíðu stofnunarinnar.