Flateyjarbók er stærst allra íslenskra skinnbóka, 202 blöð skrifuð undir lok 14. aldar og 23 blöð sem aukið var í bókina á síðari hluta 15. aldar. Hún er nú bundin í tvö bindi. Flateyjarbók er einstök að því leyti, að hún segir sjálf meira af uppruna sínum en önnur miðaldahandrit íslensk, sem nær engin geta skrifara sinna eða ritunartíma. Í formála Flateyjarbókar segir að bókina eigi Jón Hákonarson og að hana hafi ritað Jón prestur Þórðarson og Magnús prestur Þórhallsson og að sá síðarnefndi hafi lýst (myndskreytt) hana alla. Jón Hákonarson (f. 1350) var auðugur bóndi og bjó í Víðidalstungu í Húnavatnssýslu, en fátt er kunnugt um skrifarana tvo. Á öðrum stað í bókinni segir Magnús Þórhallsson að hún sé rituð 1387, en hann hefur aukið ofurlitlu við hana næstu sjö árin. Ekki er vitað með vissu um feril Flateyjarbókar fyrst eftir að Jón Hákonarson leið, en á síðara hluta 15. aldar mun bókin hafa verið í eigu Þorleifs Björnssonar hirðstjóra á Reykhólum, og hann mun hafa aukið í hana þeim 23 blöðum sem yngri eru en meginstofn bókarinnar. Sonarsonur Þorleifs Björnssonar, Jón Björnsson í Flatey, er fyrsti maður sem skjalfest er að hafi átt Flateyjarbók eftir daga Jóns Hákonarsonar, en Jón Björnsson gaf hana sonarsyni sínum Jóni Finnssyni, sem einnig bjó í Flatey, og við heimkynni þeirra feðga er bókin kennd.
Meginefni Flateyjarbókar er sögur af Noregskonungum. Í fyrra hlutanum eru fyrirferðarmestar Ólafs saga Tryggvasonar (d. 1000), sérstök gerð þeirrar sögu sem er nefnd hin mesta, og Ólafs saga helga (d. 1030), að meginstofni sérstaka sagan eftir Snorra Sturluson, sem hann samdi á undan Heimskringlu. Í Ólafs sögu Tryggvasonar hinni mestu er saga þessa konungs eftir Snorra notuð sem uppistaða, en miklu efni sem eitthvað varðaði ævi konungsins og kristniboð hans ofið inn í. Skyldar gerðir af sögum Ólafanna eru varðveittar í öðrum handritum, en hvergi jafnmikið auknar og í Flateyjarbók, þar sem heilum sögum, köflum úr sögum og sjálfstæðum þáttum er bætt við. Þar á meðal eru Færeyinga saga, að meginhluta texti sem virðist í frumgerð og hvergi er til annarsstaðar, Orkneyinga saga nær heil, Fóstbræðra saga með köflum sem ekki eru í öðrum handritum hennar, og Grænlendinga saga sem hvergi er varðveitt annarsstaðar, ein hinna elstu fornsagna okkar og jafnframt ein elsta heimild um fund Vínlands. Margir af þáttum Flateyjarbókar eru og hvergi varðveittir nema þar, svo sem Einars þáttur Sokkasonar, Þorleifs þáttur jarlaskálds, Þorsteins þáttur uxafóts, Orms þáttur Stórólfssonar og Hróa þáttur heimska.
Í síðari hluta Flateyjarbókar eru m.a. sögur Sverris konungs (d. 1202) og Hákonar gamla (d. 1263). Sverris saga er elsta stóra Noregskonunga sagan sem til er. Fyrri hluti hennar, og ef til vill sagan öll, er eftir Karl Jónsson ábóta á Þingeyrum, upphafið ritað eftir forsögn Sverris sjálfs, en framhaldið eftir sögn kunnugra samtíðarmanna. En Hákonar saga er samin af hinum kunna sagnaritara Sturlu Þórðarsyni. Á milli Ólafs sögu helga og Sverris sögu var upphaflega hálfrar annarrar aldar eyða í samfelldar konungasögur handritsins. Á síðari hluta 15. aldar, líklega að undirlagi Þorleifs Björnssonar hirðstjóra á Reykhólum, var úr þessu bætt að nokkru með því að sögur þeirra Magnúsar góða og Haralds harðráða, auk nokkurra Íslendingaþátta sem þeim eru tengdir, voru skrifaðar á 23 blöð sem aukið var inn aftan við upphaflegu konungasögurnar í bókinni.
Aftast í Flateyjarbók er annáll sem spannar tímabilið frá því að Júlíus Cesar varð "einvaldshöfðingi yfir öllum heimi" og fram til ársins 1394, en þá var "hallæri mikið til kostar og skreiðar nær um allt land, vor kalt, grasvöxtur lítill, fellir nokkur."
Á Flateyjarbók hefur varðveist mikið af merkilegu efni sem hvergi er annarsstaðar til, enda hafa við gerð hennar verið notuð fleiri forrit en að nokkru öðru handriti íslensku.; hún verður því ævinlega talin með merkustu handritum íslenskra bókmennta.
Búningur Flateyjarbókar er slíkur, einkum þó lýsingar, að einstakt er, þegar um söguhandrit er að ræða, sem er fremur ætlað til skemmtunar og fróðleiks en nytsemdar í andlegum eða veraldlegum efnum.
Þeirri hugmynd hefur verið hreyft, að í Flateyjarbók hafi í öndverðu ekki átt að vera sögur fleiri Noregskonunga en Ólafanna tveggja og bókin hafi verið ætluð þriðja konunginum með því nafni, Ólafi Hákonarsyni. En sá Ólafur dó eða hvarf á unglingsaldri 1387, sama árið og þessi hluti Flateyjarbókar var skrifaður, og með honum dó út norska konungsættin frá Haraldi hárfagra.
Jón Finnson í Flatey gaf Brynjólfi Sveinssyni biskupi Flateyjarbók 1647 en biskup sendi hana Friðriki þriðji Danakonungi árið 1656. Fullar þrjár aldir var Flateyjarbók einn helsti kjörgripur Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn, en gjafahringnum var lokað síðasta vetrardag 1971, þegar Helge Larsen menntamálaráðherra Dana afhenti hana Gylfa Þ. Gíslasyni menntamálaráðherra með orðunum "Vær så god! Flatøbogen."
Í síðari hluta Flateyjarbókar eru m.a. sögur Sverris konungs (d. 1202) og Hákonar gamla (d. 1263). Sverris saga er elsta stóra Noregskonunga sagan sem til er. Fyrri hluti hennar, og ef til vill sagan öll, er eftir Karl Jónsson ábóta á Þingeyrum, upphafið ritað eftir forsögn Sverris sjálfs, en framhaldið eftir sögn kunnugra samtíðarmanna. En Hákonar saga er samin af hinum kunna sagnaritara Sturlu Þórðarsyni. Á milli Ólafs sögu helga og Sverris sögu var upphaflega hálfrar annarrar aldar eyða í samfelldar konungasögur handritsins. Á síðari hluta 15. aldar, líklega að undirlagi Þorleifs Björnssonar hirðstjóra á Reykhólum, var úr þessu bætt að nokkru með því að sögur þeirra Magnúsar góða og Haralds harðráða, auk nokkurra Íslendingaþátta sem þeim eru tengdir, voru skrifaðar á 23 blöð sem aukið var inn aftan við upphaflegu konungasögurnar í bókinni.
Aftast í Flateyjarbók er annáll sem spannar tímabilið frá því að Júlíus Cesar varð "einvaldshöfðingi yfir öllum heimi" og fram til ársins 1394, en þá var "hallæri mikið til kostar og skreiðar nær um allt land, vor kalt, grasvöxtur lítill, fellir nokkur."
Á Flateyjarbók hefur varðveist mikið af merkilegu efni sem hvergi er annarsstaðar til, enda hafa við gerð hennar verið notuð fleiri forrit en að nokkru öðru handriti íslensku.; hún verður því ævinlega talin með merkustu handritum íslenskra bókmennta.
Búningur Flateyjarbókar er slíkur, einkum þó lýsingar, að einstakt er, þegar um söguhandrit er að ræða, sem er fremur ætlað til skemmtunar og fróðleiks en nytsemdar í andlegum eða veraldlegum efnum.
Þeirri hugmynd hefur verið hreyft, að í Flateyjarbók hafi í öndverðu ekki átt að vera sögur fleiri Noregskonunga en Ólafanna tveggja og bókin hafi verið ætluð þriðja konunginum með því nafni, Ólafi Hákonarsyni. En sá Ólafur dó eða hvarf á unglingsaldri 1387, sama árið og þessi hluti Flateyjarbókar var skrifaður, og með honum dó út norska konungsættin frá Haraldi hárfagra.
Jón Finnson í Flatey gaf Brynjólfi Sveinssyni biskupi Flateyjarbók 1647 en biskup sendi hana Friðriki þriðji Danakonungi árið 1656. Fullar þrjár aldir var Flateyjarbók einn helsti kjörgripur Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn, en gjafahringnum var lokað síðasta vetrardag 1971, þegar Helge Larsen menntamálaráðherra Dana afhenti hana Gylfa Þ. Gíslasyni menntamálaráðherra með orðunum "Vær så god! Flatøbogen."