Skip to main content

Frásögur um fornaldarleifar 1817-1823

Útgáfuár
1983
ISBN númer
9979-819-40-5
Árið 1817 sendi fornleifanefndin í Kaupmannahöfn (Commissionen for Oldsagers Opbevaring) fyrirspurnir um fornleifar ýmiskonar, sögusagnir um fornmenn, merkileg pláss, fornan átrúnað, hjátrú o.fl. til biskups og amtmanna á Íslandi, en þeir dreifðu spurningalistum til presta, og á næstu árum, 1817-1823, bárust nefndinni svör hvaðanæva að af landinu. Ritið Frásögur um fornaldarleifar 1817-1823 er heildarútgáfa á öllum þeim svarbréfum sem hafa varðveist. Sveinbjörn Rafnson prófessor hefur búið ritið til prentunar og ritað skýringar og inngang. Frásögurnar eru úr flestum kirkjusóknum á landinu og samdar af hátt á annað hundrað prestum og einstökum embættismönnum öðrum. Í þeim er merkilegur fróðleikur um íslenskar fornminjar, kirkjugripi, örnefni, þjóðtrú og sagnir, og þar á meðal eru þjóðsögur sem ekki höfðu áður verið festar á blað.

Í svörunum er drjúgt safn munnmælasagna. Þar ber mjög mikið á munnmælum ýmiskonar um fornmenn og um hauga og fornmannaleiðir. Sagnir eru ýmsar um staði og örnefni og um uppruna kirkjugripa og eru margar sagnir listavel skrifaðar. Frá Steingrími Jónssyni, sem síðar varð biskup, er merkilegt safn af sögum um Sæmund fróða, sem gaman er að bera saman annars vegar við Sæmundarsögu sem Árni Magnússon handritasafnari hafði látið skrá hundrað árum áður eða liðlega það, og hins vegar við samkynja sögur sem síðar voru skráðar eftir því sem fólk þá kunni. - Þjóðtrúarsagnir eru nokkrar vel sagðar og margt fleira af svipuðu tagi.

Í inngangi er rakinn aðdragandi söfnunar fornleifanefndarinnar; kaflaheiti í honum eru:

I. Stofnuð "Commissionen for Oldsagers Opbevaring" árið 1807. II. Afskipti nefndarinnar af Íslandi 1809 - 11. III. Finnur Magnússon tekinn í nefndina. IV. Fyrsta friðun fornminja á Íslandi. V. Söfnun íslenskra prestaskýrslna á vegum nefndarinnar. VI. Söfnun íslenskra forngripa á vegum nefndarinnar. VII. Um önnur áhrif fyrirspurnanna á Íslandi.

Allar teikningar í frásögunum eru birtar í ritinu, ennfremur fjöldi rithandasýna og ljósmyndir af forngripum sem getið er í frásögunum og nefndinni voru sendir. Frásögurnar sjálfar eru prentaðar stafrétt eftir handritum höfundanna. Aftast eru rækilegar skrár og skjala- og handritaskrá.

Safnið er mjög fjölbreytt vegna þess að svörin eru rituð af mörgum og ólíkum mönnum úr flestum héruðum landsins, og beita þeir mismunandi stíl og stafsetningu. Flestir svara á móðurmálinu, sem að vísu er nokkuð mengað dönsku og latínu eins og lengi hafði tíðkast meðal íslenskra lærdómsmanna, og er fróðlegt að bera þetta saman við þá breytingu sem varð litlu síðar með málhreinsun Bessastaðamanna. Sumir prestarnir prentuðu neðanmáls við þær skýrslur sem skrifaðar eru á erlendum málum. Svo sem vænta má eru frásagnirnar ekki allar jafn ítarlegar, enda auðvitað um misjafnlega auðugan garð að gresja varðandi fornleifarnar. En í flestum sveitum landsins er nokkuð að finna frásagnavert, og mun mörgum þykja fróðlegt að lesa um átthaga sína og bera saman við ástandið nú á dögum. Verkið er í tveimur bindum, alls 740 blaðsíður.