Skip to main content

Eddurit Jóns Guðmundssonar lærða

Útgáfuár
1998
ISBN númer
9979819618
-Samantektir um skilning á Eddu og Að fornu í þeirri gömlu norrænu kölluðust rúnir bæði ristingar og skrifelsi. I-II.

-Þættir úr fræðasögu 17. aldar.

Í seinna bindi þessa verks eru fyrsta sinni gefin út tvö rit eftir Jón Guðmundsson lærða (1574-1658). Fyrra ritið Samantektir um skilning á Eddu er uppskrift á köflum úr Snorra-Eddu eftir glötuðu handriti hennar með margfróðum viðbótum Jóns sjálfs, og hið síðara Að fornu í þeirri gömlu norrænu kölluðust rúnir bæði ristingar og skrifelsi eru skýringar hans á Brynhildarljóðum eftir Völsunga sögu.

Í inngangi í fyrra bindi er ítarlegt yfirlit um stormasama ævi Jóns lærða og fjölbreytileg ritstörf, en meðal þeirra má nefna Grænlands annál, Um Íslands aðskiljanlegar náttúrur, Tíðfordríf og margháttaðan kveðskap.

Þá er í innganginum gerð grein fyrir tilurð Edduritanna; þau eru samin að beiðni Brynjólfs Sveinssonar Skálholtsbiskups upp úr 1640, en hann hafði þá sjálfur í hyggju að semja rit um fornan norrænan átrúnað og hafði því samband við lærða menn innan lands og utan sem fengust við forn fræði. Fjallað er um varðveislu Edduritanna og leitað heimilda að viðbótum Jóns. Sýnt er fram á að Jón lærði hefur þekkt ýmis glötuð rit, þar á meðal einhverja texta af Eddukvæðum. Í ritinu er sýnt fram á uppruna, aðdrætti og gildi margra rita frá 17. öld og merkilega fræðastarfsemi á þeirri tíð.

EINAR G. PÉTURSSON, f. 1941. Lauk cand. mag. prófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1970 og stundaði eftir það nám í þjóðsagnafræðum við háskólann í Ósló. Varð starfsmaður við Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi 1972 og gaf út Miðaldaævintýri þýdd úr ensku, 1976. Jafnframt hefur Einar numið og kennt bókasafnsfræði við Háskóla Íslands og gaf út ásamt öðrum ritið Íslensk bókfræði 1990. Hann hefur birt fjölda greina í bókum, tímaritum og blöðum og ritstýrir við annan mann tímaritinu Breiðfirðingi. Einar var deildarstjóri Þjóðdeildar Landsbókasafns frá 1984 til 1988, varð þá sérfræðingur við Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi og starfar að útgáfu á Tíðfordrífi og fleiri verkum Jóns Guðmundssonar lærða.