Skip to main content
22. júní 2018
Reynistaðarbók – Margvíslegur fróðleikur handa nunnum

Sumar bækur verða til á löngum tíma og það er ekki alltaf auðvelt að segja til um hvenær þær eru fullskrifaðar. Til eru handrit sem minna meira á drög að bók en fullgert rit og sum bera með sér að margir skrifarar hafa lagt hönd að verkinu og sveigt að sínum smekk og áhugamálum. Hér skiptir líka máli að skrifarar voru bundnir af því efni sem þeir gátu náð í til eftirritunar.

22. júní 2018
Helgubók — kvæðasafn á mörkum kaþólsku og lútersku

Bókin, sem hefur safnmarkið 622 4to í safni Árna Magnússonar, er eitt fárra skinnhandrita þar sem skrifarinn er þekktur með vissu. Á saurblaði handritsins er að finna slitur úr tileinkun: „Helga Gísladóttir sögð er á þessa bók [...] föður mínum Gísla Jónssyni p(resti) anno Domini 1549.“ Hér er átt við Gísla Jónsson, síðar biskup í Skálholti (1558–1583), eldheitan siðskiptamann. Hann hefur tileinkað Helgu dóttur sinni bókina, að minnsta kosti fyrsta hluta hennar, árið 1549.

22. júní 2018
Handrit úr fórum Guðríðar Jónasdóttur frá Svarfhóli (1843–1919)

Fyrir mörgum árum var ég að gramsa í gömlum smákökukössum hjá föðursystur minni, Ragnheiði Kristjönu Baldursdóttur, og fann þar pappíra frá foreldrum hennar, Baldri Sveinssyni frá Húsavík og Marenu Pétursdóttur úr Engey. Þar á meðal var umslag sem á stóð „Guðríður Jónasdóttir frá Svarfhóli í Miklaholtshreppi móðir Jóh. G. Sigurðssonar“.

22. júní 2018
Kerlingar í landslaginu

Birtist upphaflega í janúar 2005.

Kerling kemur víða fyrir sem nafn á fjalli, tindi eða drang og verða nokkur þeirra nefnd hér:

1) Drangur sem gnæfir upp úr líparítskriðu í vestanverðum Kerlingarfjöllum í Árnessýslu. Þar er líka Kerlingará í Kerlingargljúfri.

2) Drangur í vesturhlíð Kerlingarfjalls á Snæfellsnesi, við hana er kennd gamla leiðin um Kerlingarskarð.

3) Fjall eða tindur í landi Skálmarnesmúla í Austur-Barðastrandasýslu.

22. júní 2018
Ambáttar-örnefni

Birtist upphaflega í mars 2004.

Orðið ambátt er tökuorð úr keltnesku og lengra aftur latínu ambactus ('þjónn') og merkir 'ófrjáls kona, þræll'. Það hefur komist snemma inn í germönsk mál og hefur verið í íslensku frá fyrstu tíð. Allnokkur örnefni á Íslandi eru með orðliðnum ambátt:

22. júní 2018
Forneskjukonan úr Ambáttarhól

[...]

„Guðný Snorradóttir fæddist um 1771. Um æsku hennar hafa sagnirnar það eitt að flytja, er þær telja hafa ráðið mestu um æviferil hennar og siði síðar. Útburðirnir í Teitsgili höfðu ekki gleymzt.

Þegar Guðný var lítil var hún eitt sinn í smalamennsku. Þá var það sem henni virtist annar útburðurinn nálgast sig hún tók á rás með hann á hælunum heim til bæjar. Og endaði með því að klerkur faðir hennar varð að grípa til kunnáttu sinnar og kvað útburðinn frá dóttur sinni, og það svo dyggilega að hann lét ekki á sér bæra síðan. En Guðný litla „varð aldrei jafngóð".

22. júní 2018
Kona verður drottning

Orðið kona er fornt að uppruna eins og við er að búast. V-ið er í stofninum, sbr. beygingarmyndina kvenna, samsetningar á kven- og fornyrðin kván, kvon og kvæn, sem merkja 'kona'. Samsvarandi orð er notað í nágrannamálunum, danska kvinde, norska kvinne og sænska kvinna.