
Védís Ragnheiðardóttir
Heiti doktorsverkefnis: Tilkoma og þróun frumsaminna riddarasagna í ljósi miðaldaævintýra
Meginmarkmið verkefnisins er að rannsaka tilkomu og þróun frumsaminna riddarasagna í ljósi svokallaðra exempla, sem ganga í norrænum frumheimildum undir ýmsum nöfnum, svo sem ævintýr, dæmi og dæmisaga, og hafa verið skilgreind sem stuttar sögur með fræðandi boðskap. Lögð er áhersla á þau ævintýr sem þýdd voru úr latínu á 12. og 13. öld og voru gefin út á 19. öld undir nafninu Islendzk æventyri. Tilgáta rannsóknarinnar verður prófuð á þrjá vegu: 1) athugun á miðaldahugtakanotkun um þessar tvær bókmenntagreinar, 2) tilviksrannsókn á tveimur textum (Klári sögu og Drauma-Jóns sögu), og 3) almennur samanburður minna milli bókmenntagreinanna. Meginaðferðafræðin að baki verkefninu er samanburðarlestur og nákvæmur lestur. Í tilviksrannsóknunum verða textar sagnanna bornir saman við ævintýr, rómönsur og þjóðsögur. Í almennum samanburði á notkun minna verður beitt nákvæmum samanburðarlestri á frumsamdar riddarasögur og ævintýr. Verkefnið mun varpa nýju ljósi á tilkomu og þróun frumsaminna riddarasagna og draga inn í umræðuna hið vanrækta rannsóknarsvið ævintýr.
Leiðbeinandi er Ármann Jakobsson, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Verkefnið er styrkt af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.