Skip to main content

Rannsóknarverkefni doktorsnema

 • Bjarni Gunnar Ásgeirsson: Rannsóknir á Skafinskinnu

Markmið verkefnisins er tvíþætt: annars vegar að rannsaka stöðu Skafinskinnu (GKS 2868 4to) meðal handrita Njáls sögu, og hins vegar að gera fullkomna lýsingu á skriftarfræðilegum og stafsetningarlegum þáttum handritsins ásamt handritafræðilegri lýsingu. Handritið verður skrifað upp í XML á táknréttan, stafréttan og samræmdan hátt. Uppskriftirnar verða síðan notaðar til að finna skriftarfræðilega og stafsetningarlega þætti til þess að ákvarða aldur handritsins og fjölda rithanda. Staða Skafinskinnu meðal Njáluhandrita verður endurskoðuð en slíkt verk hefur ekki verið unnið síðan á sjötta áratug 20. aldar. Skyldleiki handritanna verður skoðaður með því að bera saman lesbrigði þeirra og nýrri textafræði verður beitt við handritafræðilegu rannsóknina og athugun á ferli handritsins. Verkefnið mun veita verðmætar upplýsingar um stöðu Skafinskinnu meðal Njáluhandrita, en Skafinskinna er eitt af aðeins tveimur handritum Njálu sem hafa verið flokkuð í Z-flokk. Texti þess flokks er ekki eins þekktur og annarra flokka enda hafa útgefendur fyrst og fremst notast við handrit X- og Y-flokks við útgáfur sínar á sögunni. Verkefnið mun auka skilning okkar á handritageymdinni og verður að miklu gagni fyrir síðari rannsóknir á handritunum og framtíðarútgáfu Njálu, og mun auk þess nýtast við rannsóknir á sögulegri málþróun íslenskunnar.

Leiðbeinandi er Svanhildur Óskarsdóttir, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

 

 • Ermenegilda Rachel Müller: Uppruni og áhrif fyrstu sagnasafnanna sem prentuð voru á íslensku

Leiðbeinandi er Margrét Eggertsdóttir, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Rannsóknin er styrk af Rannsóknasjóði (Rannís).

 

 

 

 

 

 

 • Ingibjörg Eyþórsdóttir: Sagnadansar – ást, hatur, ofbeldi: Umfjöllunarefni og félagslegt hlutverk

Viðfangsefni rannsóknar minnar er sagnadansar varðveittir á Íslandi, með aðaláherslu á þann hluta greinarinnar sem segir frá hlutskipti kvenna: ástum, átökum, hatri og kynferðislegu ofbeldi. Þetta virðist með einum eða öðrum hætti vera meirihluti þeirra kvæða sem varðveitt eru hér á landi. Sjónarhornið sem birtist í þessum kvæðum er langoftast kvennanna og sögusamúðin er einnig oftast þeirra megin; í þeim kvæðum sem segja frá ofbeldi eru konur oftast fórnarlömbin en þó kemur fyrir að þær eru afdráttarlausir gerendur og bregðast þær við ofbeldinu með því að hefna grimmilega.

       Margt bendir til þess að kvæðin hafi lengi verið hluti dægurmenningar þjóðarinnar, þau eru höfundarlaus og hafa að öllum líkindum gengið á milli fólks um langa hríð áður en þau voru loks skráð eftir miðja 17. öld. Í rannsókninni verða sagnadansarnir flokkaðir og greindir og fjallað um þá sem hluta munnlegrar menningar en vegna varðveislunnar verða bókmenntaleg einkenni þeirra einnig rannsökuð enda lifðu þeir sem rituð kvæðagrein allt frá skráningu. Vegna umfjöllunarefnisins verður fyrst og fremst leitað svara við þeirri spurningu hvort kvæðin geti hafa verið hluti af menningu kvenna og kveðin og flutt af konum, og þá hvort kvæðin hafi gegnt ákveðnu hlutverki innan kvennamenningar. Í upphafi verður gengið út frá þessu sem líklegri tilgátu, enda lýsa þau flest reynslu sem margar konur þekktu í einhverri mynd og gátu samsamað sig við. Hugmyndir um úrvinnslu áfalla með stuðningi frásagnar og annarra listforma verða kynntar í því samhengi. Þar verður aðaláherslan á flutning kvæðanna og þá heild sem kvæði, tónlist og dans skapar. Leiðbeinandi er Aðalheiður Guðmundsdóttir prófessor við Háskóla Íslands og er verkefnið styrkt af Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands.

 

 • Johnny F. Lindholm: Sandheds veje. Billede og forestilling i Ólafur Jónsson á Söndums poesi / Vegir sannleikans. Myndir og ímyndun í kveðskap Ólafs Jónssonar á Söndum

Markmiðið með þessu doktorsverkefni er að varpa ljósi á lítt rannsakað svið íslenskrar bókmennta- og menningarsögu: myndmál í elsta sálmakveðskap á íslensku. Nánar tiltekið er ætlunin að skilgreina notkun myndmáls í kvæðum og sálmum vestfirska skáldsins sr. Ólafs Jónssonar á Söndum (1560–1627), einkum með tvennt í huga: 1) hvernig myndmálið snertir eða virkar á lesandann (áhrif ljóðmálsins) og 2) hvernig guðfræðilegum hugmyndum er komið til skila með myndmáli. Til að afmarka viðfangsefni ritgerðarinnar er síðarnefnda spurningin tengd þremur guðfræðilegum grunnatriðum: guðshugmyndinni, mannskilningi og skilgreiningu á því hvað felst í hugtakinu frelsun eða hjálpræði; það er í samræmi við guðfræðilega hugsun Marteins Lúthers. Ritgerðin byggist á gagnasafni sem hefur að geyma um 50 óútgefna texta eða rúmlega 5300 vísuorð með nótum eftir Ólaf Jónsson. Búið er að orðtaka textana og búa til orðalykil sem leggur grunn að því efni sem fjallað er um í ritgerðinni.

Leiðbeinandi er Margrét Eggertsdóttir, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Verkefnið er styrkt af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.

 

 • Katrín Lísa. L. Mikaelsdóttir: Norvagismar í íslenskum handritum frá 1350 til 1450

Markmið rannsóknarinnar er að kanna þróun norskra mál- og stafsetningareinkenna í íslenskum handritum og skjölum á tímabilinu 1350−1450. Þó að 15. öldin hafi hingað til verið álitin tímabil stöðnunar í sögu íslensks máls, stafsetningar og skriftar urðu langtímabreytingar vegna plágunnar 1402−1404 og eins vegna þess að ört dró úr norskum áhrifum á Íslandi. Þessar breytingar höfðu mögulega áhrif á talmálið. Þetta tímabil hefur þó fram að þessu ekki verið rannsakað kerfisbundið. Í þessu rannsóknarverkefni verður veitt fyrsta nákvæma og ýtarlega yfirlitið yfir þróun algengastra svokallaðra norvagisma. Á grundvelli þessara gagna verður unnt að greina hve djúpt norsk áhrif ristu í íslensku máli. Niðurstöðurnar munu þannig varpa ljósi á að hve miklu leyti þessi áhrif snertu sjálft tungumálið og að hve miklu leyti þau voru takmörkuð við ritmál. Einnig er aukið við þekkingu á sögu norsku og íslensku og á áhrifum svartadauða á íslenska málsögu. Sérstakri athygli verður beint að aðferðum málsnertinga; umfram allt að tengslum milli nátengdra mála og mállýskna. Niðurstöðurnar verða þannig notadrjúgar fyrir rannsóknir minna rannsakaðra málsambýla í öðrum samfélögum í framtíðinni.

Leiðbeinandi er Haraldur Bernharðsson, dósent við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Verkefnið er styrkt af Rannsóknasjóði (Rannís).

 

 • Lea Debora Pokorny: Bókagerð á Íslandi á seinni hluta 14. aldar. Efnisleg rannsókn á handritum og handritagerð í evrópsku samhengi

Markmið þessarar rannsóknar er að kanna bókagerð á síðari hluta 14. aldar á Íslandi og bera aðferðir og tækni sem notuð var saman við vestur-evrópska hefð. Þó að íslensk handrit séu kjarni íslenskrar miðaldamenningar er lítið vitað um þær aðferðir sem notaðar voru við framleiðslu þeirra og um ferli handritagerðarinnar. Þessi rannsókn sameinar tvær nýjar leiðir til að skilgreina íslensk handrit í öllum efnislegum smáatriðum (= codicological analysis) ásamt samanburði við svæði í Vestur-Evrópu. Alls verða 1.714 blöð úr 24 upprunalegum handritum skoðuð en 16 þeirra eru hluti svokallaðs Helgafellshóps og er verkefnið tengt rannsóknarverkefninu Bókagerð í Helgafellsklaustri á 14. öld sem styrkt er af RÍM (Ritmenning íslenskra miðalda).  

Leiðbeinendur eru Beeke Stegmann, rannsóknarlektor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Erik Kwakkel, prófessor við háskólann í British Columbia.

 

 • Nikola Macháčková: Rannsókn á varðveislu handrita: Egils rímur og „Yngri Egla“

Egils saga er varðveitt í nokkrum handritum sem enn eru til í dag og er elsta handritsbrotið frá miðri þrettándu öld (AM 162 A θ fol.). Efni þessa verkefnis eru hins vegar mun yngri birtingarmyndir sögunnar, Egils rímur frá miðri sautjándu öld, og „Yngri Egla“, en hún er prósaverk og oft þekkt sem „Vitlausa Egla“. Sú síðarnefnda er að miklu leyti byggð á rímunum og er hún varðveitt í fjórum handritum frá sautjándu og átjándu öld. Sú gjörð að snúa sögum í bundið mál og svo aftur í prósa hefur mikið verið stunduð í íslenskri bókmenntahefð en hún hefur hingað til ekki verið rannsökuð ítarlega, þá sérstaklega þegar við kemur Íslendingasögum. Umbreyting texta þessarar vinsælu sögu á sautjándu og átjándu öld getur gefið okkur innsýn í viðtökur sögunnar, samfélag þessa tíma og hið breytilega bókmenntalega dálæti þjóðfélagsins.

Leiðbeinandi er Svanhildur Óskarsdóttir, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

 

 • Roberto Luigi Pagani: Skrifarar og íslensk skrifaravenja á 15. öld

Markmið rannsóknarinnar er að gera yfirlit um og greiningu á þróun skriftar, máls og stafsetningar á „hinni löngu 15. öld“, þ.e. frá síðasta fjórðungi 14. aldar og fram á fyrsta fjórðung 15. aldar. Þetta tímabil í sögu íslenskrar skriftar og stafsetningar er stundum álitið tímabil stöðnunar í samanburði við aldirnar á undan, en það gerir það að verkum að erfitt hefur reynst að tímasetja bækur og skjöl frá þessum tíma á grundvelli skriftar og stafsetningar. Þetta tímabil hefur þó fram að þessu ekki verið rannsakað kerfisbundið. Í þessu verkefni verður ráðist í kerfisbundna rannsókn á helstu breytingum sem áttu sér stað í íslenskri skrift, stafsetningu og máli á þessum tíma með því að kanna valda þætti í fjölda skrifarahanda í handritum og bréfum frá öllum tímabilinu. Breytileiki frá einum skrifara til annars verður kannaður sérstaklega og einnig innri breytileiki í handritum sem eignuð eru einum og sama skrifara. Afrakstur verkefnisins verður fyrsta kerfisbundna rannsóknin á íslenskri skrift, stafsetningu og máli á 15. öld. Verkefnið skilar þannig ekki aðeins mikilsverðu framlagi til bættrar þekkingar okkar á þróun íslenskrar skriftar, stafsetningar og máls almennt, heldur mun hún hafa beint hagnýtt gildi með því að auðvelda aldursgreiningu handrita og bréfa frá tímabilinu.

Leiðbeinendur eru Haraldur Bernharðsson, dósent við Háskóla Íslands, Guðrún Þórhallsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, og Guðvarður Már Gunnlaugsson, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Verkefnið er styrkt af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.

 

 • Romina Werth: Um áhrif þjóðsagna á íslenskar miðaldabókmenntir

Verkefnið felst í þverfaglegri rannsókn á sviði bókmenntafræði og þjóðfræði. Í stærra samhengi verður leitast við að sýna fram á ævintýragerðir og -minni í íslenskum miðaldabókmenntum, til að mynda fornaldarsögum, Íslendingasögum og riddarasögum. Áhersla verður þó einkum lögð á ævintýrið um Öskubusku sem tilheyrir ævintýragerð ATU 510: Cinderella sem finna má víðs vegar um heim og sem er ævaforn. Þekkt Öskubuskuminni á borð við týnda skóinn sem seinna mátast fullkomlega á kvenhetjuna, sem og minnið um réttu og röngu brúðina, verða borin saman við efnisþætti í íslenskum miðaldabókmenntum. Að auki virðist íslenska Öskubuskutilbrigðið Sagan af Mjaðveigu Mánadóttur, sem var skráð eftir munnmælum á 19. öld og er prentað í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar, fela í sér minni sem rekja má til íslenskra miðaldabókmennta, og þarfnast þau nánari athugunar. Í rannsókninni verður gerð grein fyrir áhrifum munnmælahefðar á íslenskar miðaldabókmenntir sem og erlendum fyrirmyndum og áhrifum sem hafa e.t.v. borist til Íslands með þýðingum, einkum á 13. og 14. öld.

Leiðbeinandi er Aðalheiður Guðmundsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknin er styrkt af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.

 

 • Soffía Guðný Guðmundsdóttir: Arons saga Hjörleifssonar – tilurð, varðveisla og viðfangsefni 

Saga Arons telst til samtíðarsagna og tengist atburðum sem greint er frá í Sturlunga sögu og Guðmundar sögu biskups A. Sagan hefur aðeins varðveist í einu miðaldahandriti frá fyrri hluta 15. aldar en í því voru tvær textaeyður þegar það var afritað á 17. öld. Saga Arons hefur þrívegis verið prentuð, sem viðauki Sturlungu eða Biskupasagna. Textaeyður voru þá fylltar efni úr Guðmundarsögu A og vísur Arons sögu taldar 16, þó einungis 11 séu varðveittar. Rannsóknin er þríþætt: 1) Handritageymdin er könnuð, m.a. vísnageymdin, og birt með rafrænum hætti. 2) Tilurð sögunnar og samsetning er rannsökuð, m.a. hvort ólíkir efnisþættir ásamt vísnageymd og samspili vísna og lausamáls varpi ljósi á ritun hennar og mögulega umritun. Rýnt er í textasamhengi Arons sögu, Guðmundarsögu A og Sturlungu, m.a. út frá rannsóknargögnum alþjóðlega útgáfuverkefnisins Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages, og tekist á við spurningar um víxlverkandi eða gagnkvæm textaáhrif í sagnaritun 14. aldar. 3) Viðfangsefni eru greind með nákvæmum lestri, og samanburðarlestri við samtímasögur og Íslendinga sögur. Efnisþættir, þemu og þræðir, minni og merking þeirra rædd, samhliða öðrum lykilatriðum í túlkuninni. Vísur Arons sögu verða búnar til útgáfu í 4. bindi Skaldic-útgáfunnar, með þeim rannsóknaraðferðum sem ritstjórnin hefur mótað.

Leiðbeinandi er Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Rannsóknin er styrkt af Rannsóknasjóði (Rannís).

 

 • Védís Ragnheiðardóttir: Tilkoma og þróun frumsaminna riddarasagna í ljósi miðaldaævintýra

Meginmarkmið verkefnisins er að rannsaka tilkomu og þróun frumsaminna riddarasagna í ljósi svokallaðra exempla, sem ganga í norrænum frumheimildum undir ýmsum nöfnum, svo sem ævintýr, dæmi og dæmisaga, og hafa verið skilgreind sem stuttar sögur með fræðandi boðskap. Lögð er áhersla á þau ævintýr sem þýdd voru úr latínu á 12. og 13. öld og voru gefin út á 19. öld undir nafninu Islendzk æventyri. Tilgáta rannsóknarinnar verður prófuð á þrjá vegu: 1) athugun á miðaldahugtakanotkun um þessar tvær bókmenntagreinar, 2) tilviksrannsókn á tveimur textum (Klári sögu og Drauma-Jóns sögu), og 3) almennur samanburður minna milli bókmenntagreinanna. Meginaðferðafræðin að baki verkefninu er samanburðarlestur og nákvæmur lestur. Í tilviksrannsóknunum verða textar sagnanna bornir saman við ævintýr, rómönsur og þjóðsögur. Í almennum samanburði á notkun minna verður beitt nákvæmum samanburðarlestri á frumsamdar riddarasögur og ævintýr. Verkefnið mun varpa nýju ljósi á tilkomu og þróun frumsaminna riddarasagna og draga inn í umræðuna hið vanrækta rannsóknarsvið ævintýr.

Leiðbeinandi er Ármann Jakobsson, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Verkefnið er styrkt af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.