Skip to main content

Betur fór en á horfðist

Aðfaranótt 21. janúar 2021 gaf 60 ára gömul kaldavatnsleiðsla sig við Suðurgötu og flæddi inn í byggingar á háskólasvæðinu svo að gríðarlegt tjón varð af. Jóhann Kristján Konráðsson starfar sem öryggisvörður hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í Árnagarði og var á vakt þessa nótt.

Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson.

Jóhann hefur starfað hjá stofnuninni í fjögur ár eða frá árinu 2017. Hann útskrifaðist úr Fangavarðaskóla ríkisins 2007 og hefur starfað sem fangavörður en einnig við öryggisgæslu hjá Bandaríska sendiráðinu á Íslandi. Starf hans sem öryggisvarðar hjá Árnastofnun felst m.a. í reglulegu eftirliti, tilkynningarskyldu og að tryggja öryggi stofnunarinnar, en allur Árnagarður er undir reglulegu eftirliti. Mikilvægt er að vera athugull og tilbúinn að bregðast við óvæntum atvikum sem kunna að koma upp á. Það reyndi svo sannarlega á árvekni öryggisvarðarins þessa örlagaríku nótt. Jóhann sýndi ótrúlegt frumkvæði og útsjónarsemi þegar hann kallaði til slökkviliðsmenn til að beina vatni frá Árnagarði sem tryggði að ekki flæddi inn í Árnagarð, þar sem Árnastofnun er til húsa, og ekkert vatn komst inn í húsnæði stofnunarinnar.

Um hina afdrifaríku nótt segir Jóhann:

„Umrædda nótt gekk allt eins vel og hægt var að vona. Þegar klukkan var að ganga tvö eftir miðnætti hringir lögreglan og tilkynnir um mikinn vatnsleka á háskólasvæðinu. Vatnsstraumurinn var þvílíkur að hann heyrðist alla leið inn í Árnastofnun. Það fór fljótlega að leka inn norðan megin á 1. hæð í Árnagarði.“ Jóhann óð vatnselginn út að Háskólatorgi til að ná sambandi við slökkviliðsmenn sem þar voru við björgunarstörf til að segja þeim að vatn væri farið renna inn í Árnagarð. Þeir brugðust skjótt við og lögðu áherslu á að bægja vatnsflaumnum frá húsinu, og Jóhann heldur áfram: „Með því að þétta útihurðina með mottum og skafa vatnið af nýdúklögðu ganggólfinu var hægt að koma í veg fyrir að vatnið næði að hurð stofnunarinnar á jarðhæð. Á sama tíma var slökkviliðið að stýra vatnsstraumnum frá Árnagarði, en þeir voru vel meðvitaðir um verðmæti okkar. Ekki datt manni í hug að eiga eftir að vaða í vatnsstraumi við Árnagarð, svona óhuggulega nálægt handritunum okkar. Aðrar byggingar háskólans voru í verri stöðu og mikið tjón. Það tók vatnsveituna um klukkutíma að stöðva lekann og starfsmenn háskólans voru búnir að hreinsa upp alla bleytu í Árnagarði um fimmleytið um nóttina. Það gerist aldrei neitt þar til það gerist. Við þurfum alltaf að gera ráð fyrir óvæntum uppákomum sem þessari. Þess vegna skiptir svo miklu máli að vera vel undirbúinn þegar á reynir. Mín upplifun af þessu er að „ég fór í gírinn“. Það er einmitt reynsla sem þessi sem gerir okkur öruggari og betri í starfinu. Fyrri starfsreynsla er það sem við höfum með okkur þegar á reynir. Ég hef starfað hjá Fangelsismálastofnun, oft við mjög erfiðar aðstæður og uppákomur á öllum tímum sólarhringsins.“

Það er ljóst að þessi atburður hefði getað haft skelfilegar afleiðingar fyrir menningarverðmæti eins og handritin okkar og má þakka fumlausum viðbrögðum og ósérhlífni Jóhanns fyrir að ekki fór verr í Árnagarði.